144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að minni mitt, sem er sæmilegt, geymi dæmi um að sambærileg staða að þessu leyti hafi verið uppi, að stjórnarliðar, hvað þá stjórnarandstæðingar eða minnihlutamenn, væru ósáttir við það hvernig ætti að afgreiða mál til 2. umr. og klára það. Það er óvenjulegt að andstaðan sé líka á hreinum faglegum forsendum og standi bullandi ágreiningur milli fagnefnda þingsins í stöðu af þessu tagi.

Almennt séð er mjög mikilvægt að menn ljúki sem mest undirbúningi undir og tillögum um efnislegar breytingar á málum fyrir 2. umr., meginumræðuna, sem í kjölfar hverrar er greitt atkvæði um frumvarpið grein fyrir grein og breytingartillögur grein fyrir grein. Við skulum ekki gleyma því að við 3. umr. eru greidd atkvæði um frumvörp í heild.

Nú er það svo að sá sem hér stendur tók þátt í þingskapalagabreytingunum 1991, þeir eru vissulega ekki margir eftir hér á velli sem voru með í því. Og ég man alveg umræðurnar um það hvers þyrfti að gæta þegar þingið færi úr tveimur deildum í eina. Muna menn það að fyrir breytinguna 1991 voru sex umræður um lagafrumvörp í tveimur deildum? Seinni deildin gat lagfært það sem miður hafði farið hjá þeirri fyrri og oft var nú metnaður í seinni deildinni að sýna fram á að félagarnir hinum megin við vegginn væru kannski ekki óskeikulir. Frumvörp fóru því í gegnum mjög rækilegan þvott að þessu leyti og stundum voru þetta sjö umræður, enduðu í sameinuðu þingi ef deildirnar náðu ekki saman. Þá sögðu sumir þeirra sem voru hallir undir deildaskiptinguna: Ef við eigum að fallast á þetta verður að vanda mjög til umferðanna í málinu og þá verður alltaf t.d. að verða við óskum um að mál gangi aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. Þá verður að passa upp á að (Forseti hringir.) efnislega sé málið í öllum aðalatriðum klárt og afgreitt við 2. umr., því að annars eru menn að stytta sér leið.