144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef í þessari umræðu lagt áherslu á það að fyrir mína parta skipti miklu máli að tvö lykilatriði séu til lykta leidd. Annars vegar það að í frumvarpið komi skýr heimild til þess að kæra lokaniðurstöðu. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að þegar upp er staðið muni jafnvel þeir sem bera skarðan hluta frá slíkum deilum, sem alltaf munu rísa, geta unað a.m.k. þolanlega við sinn hlut. Þeir hafa átt sinn dag fyrir dómnum, getað fært fram sín rök, og þá eru leikreglurnar þær að það kemur ákveðin niðurstaða sem menn verða þá að sæta hvorum megin sem þeir liggja línunnar.

Í öðru lagi tel ég mjög mikilvægt, til þess að taka aftur vald til kjörinna fulltrúa sem er selt frá þeim bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum með frumvarpinu, að það sé lágmark, eiginlega svartalágmark, að kerfisáætlun fari til umræðu hér í þinginu. Undir þetta tók formaður umhverfis- og samgöngunefndar og hann er efstur á palli þeirra framsóknarmanna, þeirra tveggja sem hér hafa talað í umræðunni. Enginn annar hefur tjáð sig. Þó að þeir komi hér upp hver um annan þveran og segist vera einhvers staðar og híma hér í húsinu í afdrepum, þá er það viðburður í þessari umræðu ef sést framan í andlit einhvers af þessum ágætu mönnum.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að formaður umhverfisnefndar hefur lýst sig ósamþykkan frumvarpinu eins og það er í núverandi mynd og þeirrar staðreyndar að ekki liggur fyrir að atvinnuveganefnd ætli að taka þau mál til endurskoðunar, a.m.k. er það ekki í gadda slegið, finnst mér lágmark að það komi fram af hálfu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, sem er sú sem (Forseti hringir.) mest vald hefur á Framsóknarflokknum í þessum efnum, hvort hún sé sammála formanni umhverfis- og samgöngunefndar eða ekki. Ef hún er það ekki (Forseti hringir.) þá hlýtur að liggja fyrir að frumvarpið er dautt og við erum að eyða tíma okkar hér.