144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um þetta mikilvæga mál. Fyrst vil ég segja að það er auðvitað mikilvægt að fram komi lagafrumvarp sem miði að því að setja lagaákvæði um uppbyggingu raforkukerfisins með meginreglur í huga sem geti verið byggðar á grundvallarreglum umhverfisréttarins um að hemja slíka uppbyggingu og haga henni með skynsamlegum hætti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að þetta er góður grunnur að þessu máli á margan hátt en útfærslan er sjaldgæflega gölluð.

Ég vil líka nefna það að uppbygging raforkukerfisins er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur öll. Á ferðum mínum um landið hefur það komið mér óþægilega á óvart hversu víða er skortur á tryggri afhendingu raforku sem stendur í vegi fyrir atvinnuþróun og hversu veikburða dreifikerfið í heild sinni er. Allir þekkja það vandamál á Vestfjörðum og þau miklu vandamál sem þar eru, en það hefur komið mér á óvart að sjá á Norðausturlandi og víða á Austurlandi hversu erfitt er að fá raforku og að sveitarfélög séu virkilega í þeirri stöðu, jafnvel á Fljótsdalshéraði, að þurfa að synja fyrirtækjum sem vilja koma en þurfa aukna raforku.

Sérfræðingar hafa orðað það við mig að í reynd sé kerfið byggt upp í kringum tvær meginstöðvar sem megi líkja við tvö olíuskip sem séu bundin saman með snæri. Ef sú skýring er rétt verður öllum ljóst hversu mikilvægt er að styrkja bandið á milli olíuskipanna tveggja. Það hlýtur auðvitað að vera markmið okkar, en það er ekki sama hvernig það er gert og mikilvægt er að tryggt sé að uppbyggingin styðji við atvinnuþróun vítt og breitt um landið, tryggi afhendingaröryggi raforku en sé líka með þeim hætti að það samrýmist eðlilegum sjónarmiðum um umhverfisvernd og um skynsamlega uppbyggingu, því að við viljum heldur ekki eyða of miklu fé í uppbyggingu innviða af þessum toga sem síðan eru illa nýttir eða vannýttir.

Það mál sem hér liggur fyrir er mjög sérstætt. Við höfum rætt það nokkuð í andsvörum en togstreita þeirra nefnda sem um málið hafa fjallað er með eindæmum og eru, held ég, engin dæmi um það að stjórnarmeirihluti sé svona ofboðslega ósamstiga milli tveggja nefnda. Ég er ekki að gantast með það þegar ég segi að álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar er fyrir mér svo gott að ég væri eiginlega alveg til í að skrifa upp á breytingar á frumvarpinu bara á þeim forsendum. Ég er því ekki að setja út á stjórnarmeirihlutann á Alþingi sem slíkan. Ef þeir fulltrúar hans tala fyrir hann þá er ég bara í grófum dráttum sammála þeim. Þeir gagnrýna að flutningsfyrirtæki séu sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og muni geta knúið sveitarfélög til að breyta skipulagsáætlunum, ekki er gert ráð fyrir fullnægjandi málsmeðferð þegar ágreiningur sé, tala um að þarna sé með kerfisáætluninni búið til ferli sem ráði meiru um uppbyggingu en til dæmis samgönguáætlun, sem þó hefur verið samþykkt af Alþingi og hefur beint lýðræðislegt umboð með þeim hætti, segjast gjalda varhuga við þessum atriðum, fjalla ítarlega um athugasemdir Skipulagsstofnunar um vandann varðandi kæruleiðir og óskýrleika þeirra. Og hvað varðar síðan næsta mál á dagskrá þessa fundar, tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, þá vara þeir líka við höfuðgallanum í þeirri tillögu, sem er að sett verði eitthvert fast viðmið um hvað lagning raflína í jörð megi kosta, sem sé algert og ófrávíkjanlegt að jarðstrengur megi ekki vera meira en 1,5 sinnum dýrari en loftlína. Mér finnst þetta allt mjög skynsamlegar athugasemdir. Þær eru allar í samræmi við meginsjónarmið sem sett hafa verið fram, t.d. af hálfu Landverndar og Skipulagsstofnunar.

Þessi sundurlausi stjórnarmeirihluti er vissulega frétt til næsta bæjar. Ég veit að hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hefur mikinn metnað til þess að vera fljótur að afgreiða mál og finnst gaman að afgreiða þau eins hratt og mögulegt er. En það var einu sinni teiknimyndahetja sem lagði mikið upp úr þessu, Lukku-Láki, og um hann var sagt að hann væri skjótari en skugginn að skjóta. Það var þannig að hann náði að skjóta úr byssunni áður en hann dró hana úr slíðrinu samkvæmt skugganum. Mér finnst það vera orðið svolítið vandamál ef hv. þm. Jón Gunnarsson er farinn að leggja svo mikið upp úr því að vera skjótari en skugginn að skjóta að hann sé farinn að afgreiða mál áður en búið er að fjalla um þau efnislega í nefndinni. Mér virðist eins og það sé að verða að veruleika og endurteknar uppákomur hans valda auðvitað mikilli togstreitu og miklum ágreiningi vegna þessa að mál sem snerta til dæmis viðkvæmt samspil atvinnuþróunar og umhverfisverndar, kalla á nauðsynlegt samráð milli nefnda, nauðsynlegt samráð milli hagsmunaaðila og þings, og það er vanvirt með þeirri aðferðafræði sem menn hafa hér beitt.

Ég vil síðan fjalla nokkuð efnislega um þá þætti sem hér eru uppi. Í fyrsta lagi er það mjög sérstakt að lesa frumvarpið út frá því með hvaða hætti flutningsfyrirtækið, sem vel að merkja er opinbert hlutafélag, Landsnet, hvernig því eru veitt ríkari völd yfir uppbyggingu starfsemi sinnar en ég man eftir að hafa séð dæmi um annars staðar í hinu opinbera kerfi. Orðalagið er eiginlega sjaldgæft, það verðskuldar að farið sé yfir það, í 1. mgr. þeirrar sem á að verða 9. gr. a segir: „Flutningsfyrirtækið skal árlega leggja fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins.“ Orðalag af þeim toga í íslenskum lögum hefur almennt verið talið fela í sér væntingu um að þetta eigi að vera samþykkt, en það á ekki að leggja árlega fyrir Orkustofnun til efnislegs mats, kerfisáætlun, sem Orkustofnun úrskurði síðan um. Nei. Það er lagt fyrir Orkustofnun til samþykktar.

Í annan stað er, eins og stjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd orðaði svo ágætlega, flutningsfyrirtækið sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum, þ.e. í þessu máli sem varðar auðvitað mikilvæga fjölbreytta hagsmuni, atvinnuhagsmuni, hagsmuni heimila vítt og breitt um landið, aðgengi að raforku og hagsmunir atvinnufyrirtækja vítt og breitt um landið og afhendingaröryggi og svo auðvitað umhverfishagsmuni, þá er það sem sagt mat og þörf fyrirtækisins sjálfs sem ræður og er í lykilstöðu. Ég ætla ekki að gera neinum upp að vilja ekki ganga fram í málum með þjóðarhag að leiðarljósi, en það segir sig alveg sjálft að hið opinbera hlutafélag, Landsnet, er að rækja ákveðið hlutverk um uppbyggingu og rekstur flutningskerfis. Þeim mun ódýrara sem það kerfi er, þeim mun betra. Þrýstingurinn verður þar af leiðandi alltaf á mikla aukningu, á uppbyggingu sem er eins ódýr og mögulegt er og þá væntanlega að fórnarkostnaður vegna umhverfissjónarmiða og annarra þátta verði ekki tekinn með í reikninginn með fullnægjandi hætti.

Sú ályktun gargar á mann þegar maður hugsar um þá staðreynd að þetta opinbera hlutafélag eigi að ráða ferðinni. Hverjum dytti í hug árið 2015 að koma með frumvarp um að Landsvirkjun mundi ákveða sjálf uppbyggingu orkukosta? Ég held að það dytti engum í hug. Hverjum mundi detta í huga að Isavia mundi ákveða uppbyggingu flugvalla? Ég held að engum mundi detta það í hug, og svona mætti lengi telja. Það er auðvitað einhver ótrúlegur fornaldarbragur og kanselíbragur á þessu viðhorfi. Annaðhvort er þetta til vitnis um algera útvistun ákvarðana um uppbyggingu orkumála til þeirra sem vilja óhefta uppbyggingu eða þetta er til marks um stjórnlyndisstíl, sem hefur ekki tekið eftir nokkru sem gerst hefur í þróun stjórnsýslu á Íslandi frá svona 1970. Orðalagið í þessari grein er síðan að mörgu leyti — mér finnst bara svo gaman að lesa þetta af því að það er svo ótrúlega furðulegt orðalag.

Í 5. mgr., þess sem á að verða 5. mgr. 9. gr. a segir: „Flutningsfyrirtækið skal hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga […] vegna kerfisáætlunar.“ Verkefnið er sem sagt algerlega lagt í hendur flutningsfyrirtækisins en það er engin umgjörð búin til um það að öðru leyti.

„Ákveða skal legu flutningslína“ — segir í næstsíðasta málslið 1. gr., þess sem á að verða 9. gr. c í frumvarpinu — „í skipulagi að fenginni tillögu flutningsfyrirtækisins í samræmi við kerfisáætlun, að höfðu samráði þess og skipulagsyfirvalda. Sveitarstjórn er óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins …“

Þetta er svo sérkennileg aðferðafræði að ég verð að taka undir með meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ekki er ég að setja út á minni hlutann, ég er bara sérstaklega ánægður með þá mörgu skoðanabræður sem ég á, þeir eru nú allir karlkyns já, í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í þessu máli. Verið er að setja flutningsfyrirtækið í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og ekki er gert ráð fyrir fullnægjandi málsmeðferð sem geti leitt til sátta ef ágreiningur skapast. Fyrirtækið er sett í öndvegi, Alþingi á hvergi að koma að málum.

Önnur stjórnvöld eru líka sett í takmarkaða stöðu. Talað er um Orkustofnun, en það á að leggja þetta fyrir Orkustofnun til samþykktar og draga má þá ályktun að ekki sé gert ráð fyrir að Orkustofnun hafi óheft endurmat á þessum kostum. Ég veit að það eru auðvitað ákveðnar heimildir fyrir Orkustofnun samkvæmt frumvarpinu til að endurmeta en það heitir eftirlit með kerfisáætlun, þeir kaflar sem fjalla um valdheimildir Orkustofnunar. Ég hef verulegar efasemdir um það að heimildin til að hafna kerfisáætlun og endurmeta hana, endurmeta forsendur hennar séu ekki hjá stjórnvaldinu En þá er sem sagt í fyrsta lagi búið að segja að Alþingi hafi ekkert vald. Stjórnvaldið hefur ekki skýrt vald heldur til að endurmeta það sem frá fyrirtækinu kemur.

Svo komum við að sveitarfélögunum. Þar eru kjörnir fulltrúar settir algerlega út í horn. Þeir eiga bara að hlýða flutningsfyrirtækinu.

Við höfum aðrar áætlanir. Við höfum byggðaáætlun sem er lögð fyrir Alþingi. Við höfum samgönguáætlun sem lögð er fyrir Alþingi. Á grundvelli hennar eru síðan teknar ákvarðanir um fjölþætta uppbyggingu samgönguinnviða, hvort sem eru flugvellir, vegalagningar eða aðrir slíkir þættir. Allt lýtur þetta fjárveitingavaldi Alþingis, eðlilegri lýðræðislegri umræðu á Alþingi, og eins og komið hefur fram í umræðunni og í áliti minni hluta atvinnuveganefndar, þá takmarka vegalögin til dæmis miklu meira möguleika Vegagerðarinnar til að ákveða veglínur þannig að ekki er verið að nota hér fordæmi úr öðrum gildandi lögum. Það er ekki verið að nota einhver eldgömul fordæmi sem eru orðin úrelt. Við erum bara með aðra þætti skipulagslaga með allt öðru formi. Það er því verið að fara hér marga áratugi aftur í tímann.

Maður spyr líka: Stenst þetta ákvæði Árósasamningsins um aðgang almennings að upplýsingum? Hvar er núna að finna hinar tárbólgnu ræður hæstv. forsætisráðherra um mikilvægi aðkomu almennings að ákvörðunum frá síðasta kjörtímabili þegar hann talaði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um sem flesta hluti? Hér er verið að taka, ekki bara af lýðræðislega kjörnum fulltrúum, ekki bara af almenningi heldur af lýðræðislega kjörnum fulltrúum allt ákvörðunarvald um uppbyggingu af þessum toga og afhenda það fyrirtæki úti í bæ? Það væri kannski ástæða til að biðja helstu talsmenn þessa máls að lesa þær tárbólgnu ræður hæstv. forsætisráðherra frá síðasta kjörtímabili um mikilvægi þess að þjóðin komi að flóknum ákvörðunum, um að fólk fái að ráða hlutum í sínu nærumhverfi.

Ég mun ekki, vegna þess að farið er að sneyðast um tíma minn, fara ítarlega yfir kosti við lagningu raflína sem er kannski betra að ræða í þingsályktunartillögunni sem næst er á dagskrá en þar er alls ekki með fullnægjandi hætti búinn til, hvorki í þessu frumvarpi né í þeirri þingsályktunartillögu, fullnægjandi rammi utan um endurmat ólíkra kosta. Mér þykir sem þar sé ákveðin hlutdrægni í þessu uppleggi gegn lagningu jarðstrengja en ég tel þó að tækniframfarir séu þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að horfa meira til þeirra. Fulltrúar Landverndar komu á fund okkar í þingflokki Samfylkingarinnar um daginn og kynntu meðal annars upplýsingar um framþróun að þessu leyti í Frakklandi og víðar í Evrópu þar sem farið er að leggja gríðarlega öflugar háspennulínur í jörð, allar í einn skurð og án þess að nokkra hindrun þurfi að gera á umferð. Það er hægt að leggja yfir þetta vegi og járnbrautarteina og hægt er að hafa ræktarland þar ofan á. Það eina sem er að ekki má byggja á nákvæmlega þeim stað sem strengurinn liggur og um tíu metra sitt hvorum megin. Það er auðvitað gríðarleg bylting og ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri miklu tækniþróun.

Virðulegi forseti. Ég hef rætt dálítið um þessa lýðræðislegu yfirstjórn. Ég vildi sérstaklega gagnvart hæstv. innanríkisráðherra, sem því miður er ekki lengur í salnum en ég trúi að hún heyri mál mitt, undirstrika það að ráðherrann verður að tala skýrt um það hvort hún standi með sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna sem er stjórnarskrárverndaður. Ég tel einfaldlega að ákvæðin um ákvörðunarvald flutningsfyrirtækisins gagnvart sveitarfélögunum standist ekki stjórnarskrárákvæði um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er mjög mikilvægt að innanríkisráðherra taki afgerandi af skarið og komi fram af myndugleik sem talsmaður sveitarfélaganna í álitamálum af þeim toga sem hér eru uppi.

Ég vil líka vekja athygli á þeim athugasemdum sem settar hafa verið fram um það hvort Orkustofnun fullnægi skilyrðum um að vera óháður aðili til að úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma vegna hlutverks stofnunarinnar að öðru leyti. Mér finnst það umhugsunarefni. Ég held að við ættum að hugleiða hvort það sé ekki sérstakur úrskurðaraðili sem þurfi til að koma að þessu leyti ef vel á að vera. Við sjáum nú þegar að Orkustofnun tekur ákveðna afstöðu með uppbyggingu orkukosta þegar kemur að endurmati á kostum til dæmis til rammaáætlunar og þar af leiðandi er það stór spurning út frá hlutverki stofnunarinnar að öðru leyti hvort hún getur verið það sem maður mundi kalla á latínu arbiter justus, þ.e. hinn réttláti, hlutlausi úrskurðaraðili ólíkra hagsmuna eða hvort hún samkvæmt lögbundnu hlutverki sé ekki of bundin hlutverkinu að tryggja uppbyggingu til að geta með trúverðugum hætti tekið á ágreiningi sem lýtur að togstreitu milli uppbyggingar og umhverfisverndar.