144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Fyrst varðandi það fyrra þá tel ég umhugsunarefni hvort Orkustofnun sé of bundin því að tryggja uppbyggingu orkukosta samkvæmt lögbundnu hlutverki til að geta verið trúverðugur úrskurðaraðili þegar kemur að ágreiningi um uppbyggingu versus umhverfisvernd. Þá er ég ekki að ásaka starfsmenn Orkustofnunar um eitt eða neitt. Þeir eiga bara að sinna sínu lögbundna hlutverki en við mundum kannski ekki láta, samkvæmt lögum, Samkeppniseftirlitið fara með úrskurðarvald um hvort samkeppni eða einokun eigi að vera á tilteknum sviðum. Við vitum nokkurn veginn hver niðurstaðan er vegna þess að lögbundið hlutverk Samkeppniseftirlitsins er að auka samkeppni og við viljum að hún geri það.

Varðandi hina spurninguna, sem hv. þingmaður kom með, þá finnst mér hún mjög góð. Mér finnst hættan vera sú, flókin hætta í þessu máli, að skipulega sé verið að byggja upp „ofstærðun“ í raforkukerfinu. Ef byggja á allt dreifingarkerfið upp miðað við það að allt sem er í biðflokki og allt sem er í nýtingarflokki eigi að virkjast munum við þurfa mjög stórt dreifikerfi. En nú er það þannig að það er ekki einu sinni að ákvörðun um að setja eitthvað í nýtingarflokk sé ákvörðun um að það verði nýtt, hvað þá í biðflokki. Hættan er því sú að við gerum allt of miklar kröfur til stærðar og flutningsgetu kerfisins. Til hvers leiðir það? Það leiðir þá á móti til þess að krafan verður um gríðarlega stórar og miklar línur og þar af leiðandi verða jarðstrengir „per definition“ óhagkvæmir, þeir verða bara óhagkvæmir strax, vegna þess að forsendan er að burðargetan sé svo gígantísk að erfitt er að finna henni stað. Þess vegna held ég að það sé verulega hættulegt að gera ráð fyrir svona mikilli „ofstærðun“ eins og mér finnst vera gert í upplegginu öllu saman.