144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans og tek undir þau orð hans að uppbygging raforkukerfisins er brýnt mál og mikilvægt. Ég þakka honum fyrir þá efnislegu umræðu sem hann fór í gegnum um þetta lagafrumvarp.

Mig langar hins vegar að nota fyrra andsvar mitt til þess að eiga orðastað við hv. þingmann um hina þinglegu meðferð málsins þar sem hann hefur nú umtalsvert lengri þingreynslu en ég. Ég varð satt að segja dálítið hissa þegar ég fór að kynna mér þetta mál hversu efnisrýrt nefndarálit meiri hluta hv. atvinnuveganefndar er. Með því að lesa það gat ég í rauninni ekki séð að gerðar hefðu verið neinar sérstakar athugasemdir við málið. Það var ekki fyrr en ég fór að lesa fylgiskjölin sem birt eru með minnihlutaáliti hv. atvinnuveganefndar sem ég fór að sjá að eitthvað meira lá þarna á baki. Það voru einhverjar athugasemdir við málið.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann: Eru þetta venjuleg vinnubrögð? Tíðkast það almennt í nefndarálitum að maður þurfi að fara hálfgerða fjallabaksleið að þeim efnislegu athugasemdum sem gerðar eru við mál þegar maður kynnir sér nefndarálit og þau störf sem unnin eru í öðrum hv. þingnefndum en þeirri sem maður situr sjálfur í?