144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Þó að ég sé nú hálfgerður kjúklingur hér í þingsal og hafi ekki verið kjörinn á þing fyrr en 2007 held ég að svarið hljóti að vera nei, að það séu ekki venjuleg vinnubrögð. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem verið hefur hér lengur en elstu menn muna, rakti nú áðan í andsvari að það að prenta ekki sem fylgiskjöl umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti væri brot á þingsköpum, eins og meiri hlutinn gerðist sekur um í afgreiðslu atvinnuveganefndar. Ég hef alla vega alltaf nálgast það þannig í gerð nefndarálita meiri hluta að taka efnislega afstöðu til hverrar einustu gagnrýnisathugasemdar sem fram kemur. Það hafa verið þau vinnubrögð sem ég hef notað sem framsögumaður og formaður í nefndum. Mér finnst það almennt vera gert og ég hef tekið eftir því að það er gert núna í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem ég sit, menn gera það. Svo er minni hlutinn oft með styttri nefndarálit og tekur það út sem honum finnst vera sérstaklega athugunarvert. Ef hann gerir ekki athugasemdir við annað þá unir hann kannski afgangnum af nefndarálitinu að öðru leyti.

Að þessu leyti má segja að umsagnir meiri hluta og minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar séu mjög gott dæmi um hefðbundna nefndarvinnu þar sem að verulegu leyti er vísað til álits meiri hlutans af hálfu minni hlutans.

Svo má gantast með það af því að það er komið kvöld að þetta er kannski ekki gallalaus uppákoma. Þetta þýðir auðvitað að það er mjög einfalt að vera í stjórnarandstöðu. Maður getur alltaf stutt ríkisstjórnina að einhverju leyti. Ef stjórnin hefur tvær stefnur í einu máli og meiri hlutinn er með hvora stefnuna í sinni nefndinni þá getur maður sannarlega sagt að maður sé stjórnarsinni, maður getur alltaf stutt ríkisstjórnina því að maður getur bara valið hvort maður styður afstöðu hennar í atvinnuveganefnd eða umhverfis- og samgöngunefnd.