144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er góð spurning og svolítið gaman að velta vöngum yfir því að í gamla daga þegar fjárlaganefnd hét fjárveitinganefnd var kerfið mjög lýðræðislegt, þegar þingmenn ákváðu hvern einasta vegspotta og allar opinberar framkvæmdir. (Gripið fram í.) Það var ekki endilega mjög skilvirkt og kallaði á umtalsverða sóun og kannski var ekki alltaf forgangsraðað í þágu almannahagsmuna. Þess vegna settu menn á fót fagstofnanir sem veittu ráð um slíkt.

Það sem er nýlunda í þessu frumvarpi er að fela ekki fagstofnun heldur einkaaðila, fyrirtæki úti í bæ, að ákveða uppbyggingu mikilvægra innviða. Ég tók dæmi um það í ræðu minni hversu fráleitt það væri ef einhverjum dytti í hug að Isavia ætti að ráða því hvar væru flugvellir eða að Landsvirkjun ætti að ákveða einhliða hvaða orkukosti ætti að nýta.

Ég held að besta fyrirkomulagið sem við getum horft til sé annars vegar fyrirkomulag byggðaáætlunar og hins vegar, e.t.v. í miklu ríkari mæli, samgönguáætlunar sem lögð er fyrir Alþingi. Hún fær hér umræðu og á grundvelli hennar eru línurnar síðan lagðar. Ég held að það sé mikilvægur grunnur í málinu. Við erum auðvitað að sumu leyti búin að búa til lagaumgjörð áþekka þessu með rammaáætlun þó að ég hafi miklar áhyggjur af því að stjórnarmeirihlutinn vilji virða það ferli að vettugi, en þar er gert ráð fyrir ákveðnu samspili hinna lýðræðislega kjörnu fulltrúa og fagstofnana. Það hlýtur auðvitað að vera leiðin. Lýðræðið og fagstofnanirnar verða að kallast á. Svo sjáum við á hinn kantinn stjórnarmeirihlutann gagnrýna ákvarðanir á síðasta kjörtímabili sem lýðræðislega kjörnir aðilar tóku innan ferlis rammaáætlunar (Forseti hringir.) og segja að þá hafi bara átt að fylgja fagstofnunum. Hér eru engar fagstofnanir, bara fyrirtæki úti í bæ. Auðvitað hlýtur það að vera þannig að fagstofnanir og (Forseti hringir.) lýðræðislega kjörnir fulltrúar taki ákvarðanir hvor um sig og ákvarðanir þeirra kallast á.