144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni í dag komst ég ekki til að fara yfir það sem mig langaði til að ræða um þetta mál. Ég er hvorki í hv. atvinnuveganefnd eða umhverfis- og samgöngunefnd og hef ekki lesið allar umsagnir um málið en hef þó lesið nægilega margar til að átta mig á því að þar er pottur brotinn. Þær umsagnir sem ég hef farið yfir eru samhljóða í meginatriðum og draga fram svipaðar áherslur og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gerir og minni hlutinn reyndar líka í sinni umsögn. Það er þverpólitískur samhljómur í umsögnum umhverfis- og samgöngunefndar og þar eru atriði sem mikilvægt er að taka til greina. Eins og fram hefur komið hefði verið eðlilegast, miðað við hvernig málið er vaxið þar sem atvinnuveganefnd er ekki búin að taka þessa umsögn til umræðu, að málinu væri frestað og tekið svo aftur fyrir og við mundum klára 2. umr. þegar búið væri að fara í gegnum athugasemdirnar og gera tillögur sem skapa sátt í málinu.

Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem mælti fyrir málinu talaði sérstaklega um að ástæðan fyrir frumvarpinu væri sú að finna leiðir til að sjá til þess að ekki yrðu illindi og leiðindi um allar framkvæmdir og þær tefðust úr hófi fram og tefðu fyrir alls konar framförum í landinu, þannig að hæstv. ráðherra mun örugglega fagna því að gerð verði bót á málinu.

Í fyrri ræðu minni fór ég yfir umsögnina frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og var búin að ræða megináherslurnar sem Landvernd leggur í umsögn sinni en náði þó ekki að klára það alveg. Ég var búin að ræða það sem Landvernd talar um að ekki sé hægt að nota rammaáætlun sem spá um virkjanir. Það hvort virkjað verður eða ekki fer eftir eftirspurn eftir raforku, fjárhagslegum fýsileika virkjana, umhverfisáætlunum o.fl., þannig að varla er hægt að segja að virkjunarkostir, hvort sem þeir eru í nýtingarflokki eða biðflokki, séu áreiðanlega kostir undir áætlun sem á að standa.

Í umsögn sinni segir Landvernd líka að óljóst sé hvernig tekið verði á deilumálum sem upp kunna að koma, t.d. milli sveitarfélaga og Landsnets. Einnig segir í umsögninni, með leyfi forseta:

„Orkustofnun yrði falið mikilvægt eftirlitshlutverk með lögunum, en með þriðju raforkutilskipun ESB, sem að hluta til er verið að innleiða með frumvarpinu er gerð krafa um sjálfstæðan og óháðan eftirlitsaðila gagnvart öllum öðrum opinberum aðilum og einkaaðilum. Þar eð Orkustofnun heyrir undir ráðherra orkumála og forstjóri stofnunarinnar er yfirmaður þess starfsfólks sem sinnir eftirliti, verður ekki séð að þetta skilyrði sé uppfyllt.“

Þarna er Landvernd að segja að Orkustofnun eins og hún er núna geti ekki sinnt þessu verkefni. Það yrði þá að styrkja stofnunina fjárhagslega og eins lagalega umgjörð hennar til að þetta gæti gengið upp.

Landvernd talar um að með frumvarpinu séu leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram og stórlega dregið úr aðkomu og valdi lýðræðiskjörinna sveitarstjórna um mikilvæg samfélagsmál. Flutningsfyrirtækinu Landsneti séu færð óeðlilega mikil völd og umhverfismál séu meðhöndluð á léttvægan hátt í frumvarpinu og dregið úr áherslum á þau mál miðað við núgildandi lög. Samkvæmt frumvarpinu, segir í umsögn Landverndar, er Orkustofnun sem eftirlitsaðila t.d. ekki ætlað að taka afstöðu til umhverfisþátta þrátt fyrir að Evróputilskipanir EES-samninga kveði á um þá almennu skyldu yfirvalda.

Það vill svo til að samhljómur er með þeim áhersluatriðum sem Landvernd setur og sem sveitarfélögin setja. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir að sambandið taki undir ábendingar sem komi fram hjá mörgum umsagnaraðilum um að verulega skorti á að vikið sé að umhverfissjónarmiðum í texta frumvarpsins. Í umsögninni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þetta verður að teljast verulegur annmarki á frumvarpinu með tilliti til þess að í 4. tölulið 1. gr. laganna segir að eitt af markmiðum laganna sé að: „Stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og taka tillit til umhverfissjónarmiða að öðru leyti.“ Að áliti sambandsins hefði þurft að draga skýrar fram við gerð frumvarpsins á hvern hátt ætlunin er að samþætta markmið laganna með skilvirkni, hagkvæmni, öryggi og umhverfissjónarmiði.“

Þarna er samhljómur með umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landverndar þó að orðavalið sé ekki hið sama.

Ég sé að tíminn líður hratt, en í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir um álit skipulagsnefndar sambandsins, með leyfi forseta:

„Að áliti nefndarinnar er frumvarpið vanbúið og sérstaklega skortir mun vandaðri skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram um skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Gagnrýnivert er að lítið sem ekkert er vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu. Með tilliti til þeirra miklu annmarka sem eru á málinu telur nefndin koma til álita að Alþingi kalli eftir því að frumvarpið verði unnið betur og síðan lagt fram að nýju. Ef ekki þykir tilefni til þess verði í öllu falli vandað mjög til umfjöllunar um málið á Alþingi og því gefinn sá tími sem þarf til að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um málið.“

Samband íslenskra sveitarfélaga leggur mikla áherslu í öllum áætlunum sínum á skipulagsvaldið sem einn af hornsteinum sjálfsstjórnunarréttar sveitarfélaganna og það eigi að virða. Ég get ekki séð fyrir mér að sveitarfélögin í landinu verði til friðs ef þau sjá fram á að taka eigi af þeim skipulagsvaldið eins og gert er í frumvarpinu. Ég held að það sé sama hvað meiri hluta hv. atvinnuveganefndar finnst um málið, að mínu áliti er deginum ljósara að það verður að breyta 9. gr. frumvarpsins og jafnvel 1. og 2. gr. þess líka. Það verður ekki umflúið. Í c-lið 9. gr. er talað um sveitarfélögin og hvernig þau eiga að gegna Landsneti og breyta áætlunum sínum samkvæmt þeirri áætlun sem fjallað er um í frumvarpinu. Það er ekki nokkur leið að sjá það fyrir sér að sveitarfélögin í landinu láti það yfir sig ganga og ég held að fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi trúað því að taka ætti tillit til þeirra athugasemda sem þeir gerðu á fyrri stigum. Þeir tala um það í umsögninni að gott samráð hafi verið framan af um drög að frumvarpinu og tekið tillit til ýmissa athugasemda og þeir þokkalega ánægðir með frumvarpið fyrir utan þessi stóru atriði sem flestir umsagnaraðilar virðast vera sammála um að þurfi að laga.

Enn og aftur legg ég til að málinu verði frestað og ef menn vilja halda kvöldfund þá verði öðrum málum hleypt að og við getum farið í að afgreiða málin. Við megum ekki láta svona augljós mistök, leyfi ég mér að segja, í meðferð málsins stífla vinnu Alþingis með þessum hætti. Það er ekki skynsamlegt að gera það.