144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er von mín að hv. þingmenn í atvinnuveganefnd, a.m.k. þeir sem eru í meiri hlutanum, séu einhvers staðar að funda með forustumönnum hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Þeir eru ekki hér í þingsal, ég vona að þeir séu í einhverjum herbergjum að reyna að finna lausn á málinu. Ég er sannfærð um að það er sáttaflötur til og við sjáum það líka á því að það eru hv. stjórnarþingmenn sem skrifa undir meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar. Þar eru fimm stjórnarþingmenn sem vilja að frumvarpið sé skoðað og þau atriði sem við höfum verið að ræða hér og allir eru sammála um sem hafa tekið til máls að þurfi að skoða. Það eru fimm stjórnarþingmenn, það þarf sjö stjórnarþingmenn til að fella frumvarpið. Og ég er alveg viss um að þeir stjórnarþingmenn sem hafa verið sveitarstjórnarmenn hljóta að horfa á frumvarpið og umsagnirnar út frá því sjónarhorni og hljóta að vilja leggja því lið að bæta 9. gr. frumvarpsins, t.d. eins og Samband íslenskra sveitarfélaga leggur til í umsögn sinni. Ég skal ekki leggja mat á það hvort þær setningar nægi sem breyting en mér finnst það alla vega gott innlegg til sátta.

Oft eru mál þannig vaxin að erfitt er að sjá samhljóm en það er ekki þannig í þessu máli. Það er auðvelt að sjá að það er hægt að vinna úr því í sátt.