144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér finnst ef til vill skringilegast við frumvarpið er hvað það fer langt inn á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og samkvæmt því sem mér hefur sýnst koma fram er að ráðherrar þeirra mála hafi ekki verið fullkomlega meðvitaðir um hversu langt þetta fer inn á þau svið. Ég held nefnilega að þetta mál þurfi að skoðast mun betur í nefnd.

Mig langaði til að spyrja þingmanninn hvað henni finnist um það að nú höfum við ítrekað reynt að fá umhverfisráðherra hingað til að eiga orðastað við okkur og gera grein fyrir þeim áhyggjum sem við höfum af umhverfisvernd í þessu máli. Hvað finnst þingmanninum um það hversu erfitt er stundum að fá ráðherra hingað inn í hús þegar við ræðum um málefni sem heyra beint undir þá?