144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Nú má kannski líkja kerfisáætlun við ýmsar aðrar áætlanir sem þingið fær í formi þingsályktunartillagna. Get ég nefnt þar samgönguáætlun og byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun og fleiri áætlanir sem koma hingað inn í þingið þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafa tækifæri til að ræða viðkomandi áætlun. Það koma umsagnir og almenningur hefur þannig aðgengi að því að tjá skoðanir sínar og þetta fær miklu meiri aðkomu og lýðræðislega umræðu en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi varðandi kerfisáætlun. Það er kannski eitt af því sem manni finnst að meiri hluti atvinnuveganefndar hefði átt að beina sjónum sínum að og taka einhvern þátt í því, sem virðist svona liggja í augum uppi að eigi við eins og með kerfisáætlun, að hún komi inn á Alþingi til umfjöllunar, því að í frumvarpinu kemur fram að aðkoma margra er ekki tryggð sem ættu að hafa aðkomu að þessu stóra skipulagsmáli og Skipulagsstofnun kvartar mjög undan því.

Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu, hvort hún telji ekki að það sé mjög augljóst að kerfisáætlun ætti að koma inn sem þingsályktunartillaga og fá ítarlega umfjöllun á Alþingi, umsagnir og annað því um líkt.