144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg augljóst á því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði áðan að það staðfestir að gallar voru á þessari málsmeðferð. Það er ekki nóg að meiri hlutinn tali um málið sín á milli. Það þarf að fara yfir hlutina með allri nefndinni auðvitað, enda hefur það komið í ljós í umræðum í þinginu að engin eining er um málið og það eru fletir á því sem ekki er hægt að sætta sig við. Þess vegna stöndum við í þeim sporum á öðrum degi, að ræða málið þó margoft sé búið að benda á hvaða leið er hægt að fara til að ná sátt í málinu. Mér finnst það í sjálfu sér fréttnæmt hvernig Alþingi hagar sér eftir að hafa lofað því, allir, með þingsályktunartillögu þingmannanefndarinnar forðum, að breyta hér vinnulagi.