144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir hennar ræðu. Ég vil taka undir það með henni að umhverfisvinkilinn vanti inn í þetta mál. Ég vil jafnframt taka undir það sem hún velti upp í máli sínu, að það nægi að taka inn þær breytingar á frumvarpinu sem eru í takti við athugasemdir hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég er sammála henni. Ég er ekki alveg viss um hvort það sé nóg, en það er þó alla vega staður til að byrja á og einhver grundvöllur fyrir frekari vinnu.

Mig langar að spyrja hana út í hennar sýn í tengslum við umhverfismálin, að því sem lýtur að mótun tíu ára kerfisáætlunar, um það sem þar segir, að horfa skuli til virkjunarkosta í bæði nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hún telji það hreinlega tækt að litið sé til allra þessara kosta og að mál sem eru í biðflokki séu meðhöndluð eins og eitthvað sem eigi bara eftir að græja áður en virkjað verði í framtíðinni. Ég spyr hvort þetta sé ekki eitthvað sem þurfi að skoða sérstaklega.