144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt að gera áætlanir um þessi mál. Mér finnst tíu ár ekkert rosalega langur tími hvað það varðar. En að nýta rammaáætlun sem einhverja spá um það hvað verði í raun virkjað og hvað ekki, það finnst mér ekki geta gengið því að þó virkjun sé í nýtingarflokki er ekki þar með sagt að það sé skylda að virkja, það eru aðrir þættir sem koma þar inn í sem þarf að taka tillit til.

Það væri hægt að horfa á þá kosti í nýtingarflokki þar sem umhverfismatið er komið og búið að reikna út fýsileika virkjunarinnar o.s.frv. En að ætla að fara í biðflokkinn og segja að svo og svo hátt hlutfall af þeim virkjunum muni enda í nýtingarflokki og verði virkjað og taka það inn í áætlun sem ætlunin er að taka alvarlega, það bara gengur alls ekki því að biðflokkurinn er úrvinnsluflokkur. Þar bíða virkjunarkostir eftir því að þeir verði rannsakaðir og spurningum svarað sem ósvarað er varðandi það hver endanleg flokkun eigi að vera.

Það eru í raun bara tveir flokkar í rammaáætlun, það er nýtingarflokkur og verndarflokkur. Hinir virkjunarkostirnir, sem ekki eru í nýtingarflokki eða í verndarflokki, eru bara kostir sem á eftir að flokka í annan hvorn flokkinn og svara spurningum og gera frekari rannsóknir, bæði samfélagslegar og efnahagslegar o.s.frv.

Rammaáætlun er ekki spá um hvað verður virkjað og hvað ekki. Það finnst mér vera grundvallaratriði.