144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:29]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst margt í þessu frumvarpi alveg ágætt og ég get hugsað mér að styðja það. En það eru þarna þessi atriði sem við erum búin að fara yfir sem þarf að laga. Það er ekki hægt að halda áfram að ræða málið, það þarf að fresta umræðunni til að fara betur yfir þau atriði. Mér finnst þessar uppákomur, bæði á þriðjudaginn og svo aftur í dag, kenna okkur það að við þurfum að tala betur saman. Stjórnarliðar þurfa að tala betur saman. Ráðherrarnir þurfa að tala betur við þingflokkana sem styðja ríkisstjórnina. Það er ekki bara það að stjórnarandstaðan sé að benda á vankanta á málinu, heldur eru það líka stjórnarliðar. Það er eins og skorti á. Af hverju var dagurinn í gær til dæmis ekki nýttur til að lenda málinu? Og af hverju var það sett á dagskrá án þess að búið væri að útkljá þessi ágreiningsefni sem svo augljóslega er hægt að ná sátt um?