144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil, í ljósi þess að menn eru að þreifa fyrir sér um úrlausn á þessum málum, hvetja hæstv. forseta til að fresta umræðunni, enda finnst mér heldur enginn bragur á því að ljúka 2. umr. um málið áður en fyrir liggur með hvaða hætti ádráttur er gefinn um frekari úrvinnslu málsins í nefnd eftir þessa umræðu. Það er eðlilegra að þær meginlínur séu ljósar og um það sé hægt að halda einhverjar ræður til að gefa nefndinni eitthvert veganesti í þá vinnu.

Ég held að á hinu væri enginn bragur að halda umræðunni áfram, ljúka henni hér þar sem menn eru að ræða eitthvert frumvarp sem allir vita að er ekki tækt eins og er þar sem fyrir liggur að stjórnarmeirihlutinn í annarri þingnefnd er allt annarrar skoðunar en stjórnarmeirihlutinn í atvinnuveganefnd. Þetta er því hálfgerður blindingsleikur af hálfu okkar í þingsal í dag og við erum að ræða málin. Það væri betra að umræðunni yrði einfaldlega frestað.