144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég segi það og tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér að ávallt er bót að hv. þm. Birgi Ármannssyni í ræðustóli Alþingis. En fyrst og fremst vil ég segja að ég fagna því að gera eigi hlé á þingfundi og fara yfir málin. Það er það sem við höfum verið að segja allan tímann. Það er margt óunnið í þessu máli, það er vanreifað. Og það sem mér finnst slæmt við að boðað var til kvöldfundar, og hér stendur kvöldfundur, er að við erum að ræða mál, sem vonandi á eftir að taka breytingum, þannig að efnisleg umræða er einhvern veginn að fara fram um mál sem ekki var tilbúið. Nú á að skoða hvort hægt sé að gera bragarbót á því, og ég fagna því, en það er slæmt að eyða ræðutíma í raun og veru áfram í það að ræða vanreifað mál. Ég ítreka því þá gagnrýni sem ég setti fram í dag á þá fyrirætlan að halda kvöldfund, þó að virðulegur forseti hafi gert grein fyrir því að hér verði gert hlé eftir 12 mínútur.