144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er loksins farið að þokast í rétta átt í þessu máli. Því ber auðvitað að fagna þótt við vitum ekki enn þá hvernig það fer af því að við erum ekki farin að ræða málið efnislega, það mun gerast eftir kl. 9. Fram að því er kannski eðlilegt að ég taki aðeins saman hvað það er sem við höfum helst gagnrýnt í málinu og ekki bara við, ekki einungis minni hlutinn á þingi heldur líka umhverfis- og samgöngunefnd eins og hún leggur sig, bæði stjórnarmeirihluti og minni hluti í þinginu, og sömuleiðis fjölmargir aðilar utan þessa húss sem munu þurfa að vinna með löggjöfina. Þegar aðilar sem munu þurfa að vinna með löggjöfina, og eru vanir að vinna með sambærilega löggjöf, setja jafn mikla fyrirvara við mál eins og raun ber vitni í þessu máli þá skiptir gríðarlega miklu að vanda til verka þegar til dæmis nefndaráliti er skilað. Þess vegna hlýtur það að vera okkur örlítil kennslustund hvernig þetta mál kemur hingað inn, að nefndarálitið í málinu skuli vera jafn stutt og raun ber vitni og taki í engu á þeim atriðum sem helst eru gagnrýnd. Það getur vel verið, eins og ég hef áður sagt, að málefnalegar ástæður séu að baki því að nefndin ákveði að taka ekki inn ákveðnar breytingartillögur frá aðilum eða ákveði að gera það, en það þarf þá að rökstyðja niðurstöðuna í nefndarálitinu.

Það sem mér finnst skipta máli er að þegar svona miklar athugasemdir koma fram um atriði sem eru ekki pólitísk deiluefni heldur snúa beinlínis að því að stofnanir sem eiga að vinna með löggjöfina telja að vafi leiki á til dæmis kæruleiðum, hvaða kæruleiðir beri að nota, frumvarpið sé ekki nægilega skýrt hvað það varðar, þá eiga menn að staldra við og reyna að skýra það, þótt ekki sé nema í nefndaráliti, þannig að menn leggi ekki af stað með löggjöf sem strax leikur vafi á hvernig eigi að vinna með. Þetta er eitt af þeim atriðum sem við höfum gagnrýnt, að menn hafi ekki lagt það á sig að fara í gegnum þær umsagnir sem bárust, sem voru fjölmargar, og reynt að svara málefnalega þeim atriðum sem helst eru gagnrýnd.

Ef við höldum áfram með kæruleiðirnar langar mig að taka dæmi um það sem er óskýrt þar. Í umsögn Skipulagsstofnunar, sem telst til aðila málsins vegna þess að þeir þurfa að vinna með þetta, er það dregið ágætlega fram. Það er óvissan sem er um hvernig fara skuli með mál sem lenda í deilufarvegi. Þar segir að leyfisveiting teljist stjórnvaldsákvörðun og samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga eru ákvarðanir Orkustofnunar sem lúta að veitingu leyfa kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem ekki megi kæra til þeirrar úrskurðarnefndar né heldur til úrskurðarnefndar raforkumála sæti hins vegar kæru til ráðherra. Skipulagsstofnun fer vel yfir hvernig spurningar vakna um það hvers eðlis ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt kerfisáætlunar er og þá hvort hún sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar raforkumála eða ráðherra. Það er síðan farið ágætlega yfir hvað býr að baki þeim athugasemdum. Mér er það ekki ljóst eftir að hafa farið yfir þetta og eftir að hafa farið yfir frumvarpið hvaða leið menn eigi í raun að fara. Slík óvissa gerir það að verkum að menn þurfa að staldra við og fara vandlega yfir það og að minnsta kosti reyna að skýra í nefndaráliti, sem jafnframt er lögskýringargagn, hver ætlun löggjafans í þessu sé. Þetta er eitt þeirra atriða sem við höfum gagnrýnt og ég heyri ekki betur en menn séu til í að skoða með okkur, sem er vel.

Síðan eru það umhverfissjónarmiðin. Á nokkrum stöðum í frumvarpinu er fjallað um hvað skuli liggja til grundvallar gerð kerfisáætlunar og þar er í engu vikið að umhverfissjónarmiðum. Við hins vegar þekkjum það að eitt af markmiðum raforkulaga er að taka tillit til umhverfissjónarmiða og það skiptir því máli að þess sjái einnig stað í þessari lagasetningu. Það er líka undarlegt að leggja af stað með svona mál, sem er að miklu leyti umhverfismál, án þess að minnast nokkurs staðar á að umhverfissjónarmið skuli liggja til grundvallar ákvarðanatöku og þeirri vinnu sem á sér stað. Þetta atriði þurfum við að fara vandlega yfir og ég get ekki séð að nokkur geti verið á móti því að gera það, enda held ég að þótt við séum kannski ósammála um hversu langt eigi að ganga vilji menn þó að minnsta kosti líta til umhverfissjónarmiða þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar, sama hvar í flokki menn standa.

Virðulegi forseti. Í því sambandi finnst mér skjóta skökku við að í frumvarpinu er fjallað um það í 3. mgr. 2. gr. hvað skuli liggja til grundvallar kerfisáætlun og segir í greininni að hún skuli byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar o.s.frv. Í greinargerðinni, þar sem fjallað er um þá grein, er talað um að í tilskipuninni sem þetta byggir að miklu leyti á sé kveðið á um að við gerð kerfisáætlunar skuli flutningsfyrirtækið gera raunhæfa áætlun og síðan eru taldar upp forsendur sem gætu verið að baki slíkri áætlun. Þar fara menn að mínu mati út á mjög hálan ís, vegna þess að þar gera þeir ráð fyrir og tína til virkjunarkosti í nýtingar- og biðflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar. Það er að mínu mati algerlega ófært af því að það er ekki nokkur maður sem veit hvar kostur sem er í biðflokki mun enda að lokum. Biðflokkur er ekkert annað en flokkur kosta, verndarkosta eða virkjunarkosta, sem á eftir að rannsaka til að taka ákvörðun um hvar þeir eigi heima. Það getur varla talist til raunhæfra forsendna eða verið grundvöllur að raunhæfri áætlunargerð að byggja til dæmis á biðflokknum. Nýtingarflokkurinn kemst kannski aðeins nær því en samt ekki, vegna þess að þótt eitthvað sé komið í nýtingarflokk hefur ekki verið gefið leyfi til að fara af stað heldur geta þeir kostir sem þar eru farið í svokallað leyfisveitingaferli sem getur síðan leitt til þess að ráðist er í virkjun eða ekki. Við setjum því mjög stórt spurningarmerki við það.

Af því að tíminn flýgur frá mér vil ég nefna að lokum að eitt þeirra stóru atriða sem við höfum sett fyrirvara við er hversu hart er gengið að sveitarfélögunum í frumvarpinu og þeim í raun og veru stillt upp við vegg frá degi eitt í þessu máli. Við höfum alls kyns fyrirmyndir í löggjöf þar sem gengið er á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Það er gert í löggjöf héðan ótt og títt en menn reyna samt að gæta einhverrar sanngirni í því. Það er ekki gert hér. Gengið er mjög hart fram gagnvart sveitarfélögunum sem er mér algerlega óskiljanlegt í ljósi þess að við höfum fyrirmyndir í til að mynda löggjöf um samgönguáætlun og líka í löggjöf um rammaáætlun um vernd og nýtingu og í hvorugu tilfellinu er gengið jafn hart fram og hér. Þess vegna verður að mínu mati að fara vandlega yfir það skapalón sem hefur verið notað hvað varðar samskipti ríkis og sveitarfélaga í tengslum við rammaáætlun annars vegar og samgönguáætlun hins vegar. Fara verður mjög vandlega í gegnum það hvort við getum ekki notað þær fyrirmyndir í þessari löggjöf. Það mun að mínu mati skapa mun heilbrigðara yfirbragð og heilbrigðari samskipti milli aðila á þessu sviði.