144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 173/2013 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

340. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna 340. máls sem varðar umhverfismál. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Bryndísi Kjartansdóttur frá utanríkisráðuneyti, Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Dagmar Sigurðardóttur frá Ríkiskaupum. Nefndinni barst ein umsögn, frá Ríkiskaupum.

Í nefndaráliti er gerð grein fyrir aðdraganda málsins. Hér er um að ræða staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá því í október 2013 og varðar málið notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum til flutninga á vegum.

Í nefndarálitinu segir síðar, með leyfi forseta:

„Með tilskipuninni er stefnt að því að efla markaðinn fyrir hrein og orkunýtin ökutæki. Talið er að aukin eftirspurn eftir slíkum ökutækjum muni hvetja bílaiðnaðinn til að fjárfesta í og þróa frekar slík ökutæki. Í tilskipuninni er kveðið á um að aðilar sem heyra undir tilteknar tilskipanir ESB á sviði opinberra innkaupa skuli taka tillit til orkunýtingar og umhverfisáhrifa við innkaup á ökutækjum til vegasamgangna. Meðal þess sem horft skal til er orkunotkun sem og losun koldíoxíðs og annarra tiltekinna mengandi efna. Kröfur tilskipunarinnar má uppfylla með tvennum hætti, annars vegar með því að skilgreina orku- og umhverfisþætti sem tækniforskrift við innkaup og hins vegar með því að fella kröfur varðandi orkunotkun og umhverfisáhrif inn í ákvörðunarferlið við innkaup. Tilskipunin á almennt eingöngu við um innkaup sem eru yfir viðmiðunarfjárhæðum tilskipana ESB á sviði opinberra innkaupa. Þó er ríki heimilt að kveða á um lægri mörk fyrir innkaup sem tengjast almennum farþegaflutningum á járnbrautum og á vegum.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingu á lögum nr. 70/2012, um loftslagsmál, og hefur umhverfis- og auðlindaráðherra þegar lagt fram slíkt breytingarfrumvarp.“

Í kjölfarið er gert ráð fyrir að gerðin sjálf verði innleidd í formi reglugerðar. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að núgildandi lög um opinber innkaup, nr. 84/2007, gera kröfu um að almennt sé litið til umhverfisþátta við opinber innkaup. Innleiðing gerðarinnar mun þó skerpa enn frekar á þeirri skyldu. Tilskipunin kveður ekki á um með hvaða hætti aðildarríkin skuli hafa eftirlit með því hvernig ákvæðum tilskipunarinnar verði framfylgt. Kostnaður við innleiðingu veltur á umfangi eftirlits og hvernig það verður útfært.

Fram kemur í lokin að nefndin leggi áherslu á hagkvæma nálgun í þeim efnum, en varðandi útfærslu efnis tilskipunarinnar í innleiðingarfrumvarpinu verður að sjálfsögðu fjallað þegar það frumvarp kemur til frekari meðferðar í þinginu.