144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

norrænt samstarf 2014.

510. mál
[22:00]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf fyrir árið 2014. Helstu málefni sem voru til umfjöllunar í Norðurlandaráði árið 2014 voru sjálfbær nýting náttúruauðlinda og utanríkis-, varnar- og öryggismál. Svíar fóru með formennsku á árinu og forseti ráðsins var Karin Åström frá janúar til september 2014 og Hans Wallmark frá október til desember. Hans Wallmark var varaforseti frá janúar til september 2014 og Phia Andersson var varaforseti frá október til desember 2014.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda var í brennidepli á vorþingfundi Norðurlandaráðs á Akureyri í apríl 2014. Sérstök umræða var um málefnið og kynnt greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl. Utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi voru til umfjöllunar á vorþingfundi Norðurlandaráðs í apríl á Akureyri þar sem samþykkt var yfirlýsing um Úkraínu og á aðalþingfundi ráðsins í október í Stokkhólmi voru helstu áhersluþættir þar Úkraína, Miðausturlönd og norðurslóðir. Þá var Thorvald Stoltenberg, höfundur Stoltenberg-skýrslunnar, gestur við sérstaka umræðu um öryggismál á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs er skipuð sjö þingmönnum og er formaður hennar Höskuldur Þórhallsson frá þingflokki Framsóknarflokks, Elín Hirst og Valgerður Gunnarsdóttir frá þingflokki Sjálfstæðisflokks, Helgi Hjörvar frá þingflokki Samfylkingar, Jóhanna María Sigmundsdóttir frá Framsóknarflokki, Róbert Marshall frá Bjartri framtíð og Steingrímur J. Sigfússon frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Í október 2014 varð sú breyting að Guðbjartur Hannesson frá þingflokki Samfylkingar varð aðalmaður í stað hv. þm. Helga Hjörvars sem varð varamaður í stað hv. þm. Guðbjartar Hannessonar. Ritari Íslandsdeildar fyrir árið 2014 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Á þingi Norðurlandaráðs, sem fór fram í Ósló dagana 28.–31. október 2014, var kosið í nefndir og embætti fyrir starfsárið 2015. Í nefndir á vegum Norðurlandaráðs fyrir hönd Íslands var skipað með þeim hætti að hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson og Helgi Hjörvar voru kjörnir í forsætisnefnd, Valgerður Gunnarsdóttir í menningar- og menntamálanefnd og eftirlitsnefnd, Elín Hirst í borgara- og netyendanefnd, Róbert Marshall í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Steingrímur J. Sigfússon í efnahags- og viðskiptanefnd og kjörnefnd og Jóhanna María Sigmundsdóttir í velferðarnefnd. Þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson varð aðalmaður í stað hv. þm. Helga Hjörvars tók hann sæti í forsætisnefnd.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði 11 sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingfundum Norðurlandaráðs og fjallað um einstök mál til meðferðar í nefndum og starfshópum ráðsins. Einnig var fjallað um önnur mál á verksviði nefndarinnar.

Eftirfylgni tilmæla Norðurlandaráðs voru á dagskrá í janúar og mars. Íslandsdeildin lagði í framhaldi af því fram tillögu til þingsályktunar um samstarf við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð um fjármögnun björgunarviðbúnaðar á norðurslóðum. Tillaga var lögð fram á grundvelli tilmæla Norðurlandaráðs nr. 4/2012 sem samþykkt var á vorþingfundi ráðsins 23. mars 2012 á Alþingi.

Blaðamannastyrkir Norðurlandaráðs 2014 voru á dagskrá í febrúar og mars. Var þar úthlutað til fjölmargra aðila sem ég ætla ekki að telja upp hér.

Eygló Harðardóttir, sem var ráðherra norrænna samstarfsmála, var gestur á fundum Íslandsdeildar í apríl og október í aðdraganda þingfunda Norðurlandaráðs á árinu.

Í september var tilnefning til forseta og varaforseta Norðurlandaráðs á dagskrá. Tillögur voru gerðar um að tilnefna hv. þingmenn Höskuld Þórhallsson annars vegar og Steingrím J. Sigfússon hins vegar til forseta Norðurlandaráðs árið 2015. Greidd voru atkvæði og hlaut hv. þm. Höskuldur Þórhallsson fimm atkvæði í Íslandsdeildinni og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tvö atkvæði. Gerð var tillaga um að tilnefna hv. þm. Guðbjart Hannesson til varaforseta Norðurlandaráðs 2015 og voru greidd atkvæði um það og hlaut hann fimm atkvæði og tveir sátu hjá. Þá var formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2015 og undirbúningur hennar á dagskrá Íslandsdeildar í nóvember.

Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda fjórum sinnum árið 2014, í janúar og september og í apríl og október, í tengslum við þingfundi ráðsins. Á fundum var fjallað um og afgreidd þau mál sem lögð voru til samþykktar fyrir þingfundi Norðurlandaráðs í apríl og október eða fyrir forsætisnefnd milli þingfunda. Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Kaupmannahöfn dagana 21.–22. janúar og sótti Íslandsdeild Norðurlandaráðs þá fundi eins og aðra fundi Norðurlandaráðs.

Árlegur leiðtogafundur forsætisnefndar með forsætisnefnd Eystrasaltsþingsins var haldinn í tengslum við janúarfundina. Helsta mál á dagskrá var samstarfsáætlun Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins 2014–2015, sem var samþykkt á fundinum. Af áhersluþáttum áætlunarinnar var sérstaklega fjallað um samræmingu aðgerða gagnvart Evrópusambandinu, NB8 Wise Men Report eftir Valdis Birkavs og Søren Gade, norðurslóðir, mansal, málefni Hvíta-Rússlands og málefni Úkraínu. Forseti Norðurlandaráðs, Karin Åström, og forseti Eystrasaltsþingsins, Laine Randjärv, fordæmdu á fundinum valdbeitingu og ofbeldi í Kænugarði til að dreifa mótmælendum sem að undanförnu hafa lýst yfir stuðningi við aðlögun Úkraínu að Evrópusambandinu.

Tengsl Norðurlandaráðs við Evrópusambandið voru til umfjöllunar í forsætisnefnd og fagnefndum. Þar var lögð fram skýrsla Andreu Karlsson með 28 tillögum um mögulegar aðgerðir til að efla tengslanet milli Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins, einkum við norræna ESB-þingmenn. Tillögum í skýrslunni er skipt í þrjá flokka; kynningu og upplýsingar fyrir Norðurlandaráð, ESB í daglegu starfi ráðsins og ESB í starfi nefnda ráðsins. Í kjölfar kynningarinnar munu fagnefndir ráðsins gefa umsögn um skýrsluna og forsætisnefnd fjalla áfram um hana á næsta fundi nefndarinnar.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd fjölluðu sameiginlega um tvær þingmannatillögur. Annars vegar um fiskeldi í hringrásarkerfum, þar sem gestir fundarins voru Per Bovbjerg frá danska tækniháskólanum, Danmarks Tekniske Universitet – DTU, og Jesper Heldbo, sem er í forsvari fyrir samstarfsvettvang hringrásariðnaðarins Aquacircle. Hins vegar var fjallað um snjalldreifikerfi fyrir raforku þar sem markmiðið er að Norðurlönd nái saman um grunnreglur, staðla og tæknikröfur til að tryggja innri markað fyrir neytendur og framleiðendur á Norðurlöndum og að samnorrænar reglur og staðlar á því sviði verði á síðari stigum tekin upp í Evrópu.

Borgara- og neytendanefnd afgreiddi úr nefnd þingmannatillögu frá flokkahópi jafnaðarmanna um endurskoðun norræna tvísköttunarsamningsins. Í nefndaráliti segir að nefndin leggi til að Norðurlandaráð beini tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að hefja endurskoðun á samningi milli Norðurlanda til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir. Borgara- og neytendanefnd afgreiddi einnig úr nefnd tillögu um gæðamerki fyrir jafnræði og jafnrétti í leikskólum og grunnskólum.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs átti í aðdraganda janúarfundanna fund með nýjum framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, Britt Bohlin, og ráðgjöfum Norðurlandaráðsskrifstofu, Tinu Bostrup, ritara forsætisnefndar, og Tryggva Felixsyni, ritara umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Einnig fundaði Íslandsdeild með fulltrúum skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar, Kenneth Broman skrifstofustjóra og Emelie Barbou des Places ráðgjafa, sem og framkvæmdastjóra Norræna menningarsjóðsins, Karen Bue.

Apríl- og vorþingfundur Norðurlandaráðs á Akureyri var með sérstakri áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og var haldinn hinn 8. apríl. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu þingfundinn hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson formaður, Valgerður Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, sem er varamaður í Íslandsdeildinni, Elín Hirst, Helgi Hjörvar, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Helstu mál á dagskrá voru stjórnmálaástandið í Úkraínu, greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, greinargerð Norrænu ráðherranefndarinnar um stöðu mála í deilum um veiðar á síld og makríl, og réttindi launafólks.

Karin Åström, forseti Norðurlandaráðs, gerði grein fyrir viðbrögðum Norðurlandaráðs við atburðum í Úkraínu. Hún rakti að 22. janúar hefðu hún og forseti Eystrasaltsþingsins, Laine Randjärv, fordæmt valdbeitingu og ofbeldi í Kænugarði og að hún og varaforseti Norðurlandaráðs, Hans Wallmark, hefðu sent frá sér yfirlýsingu 12. mars. þar sem skorað var á rússnesk yfirvöld að gera ráðstafanir til að draga úr spennu í Úkraínu jafnframt því að fyrirhugaðri heimsókn þingmanna á vegum Norðurlandaráðs til Murmansk var frestað um óákveðinn tíma og að hún og varaforsetinn hefðu fundað með fulltrúum þjóðþinga Eystrasaltslandanna og Póllands, sem og fulltrúum Eystrasaltsþingsins, 20.–24. mars til að sýna stuðning vegna ríkjandi spennuástands í Úkraínu. Karin Åström lagði áherslu á að við núverandi aðstæður, sem væru einstakar og sögulegar, þá væri Norðurlandaráð málsvari lýðræðis, opinna samfélaga og gegnsæis.

Talsmenn flokkahópa Norðurlandaráðs tóku í sama streng. Fyrir hönd Íslandsdeildar tók hv. þm. Elín Hirst þátt í umræðunni. Hún sagði atburðina þar og framferði Rússa sannarlega koma Norðurlöndum við vegna vilja Norðurlanda til að stuðla að útbreiðslu lýðræðis. Hún taldi að Norðurlöndin ættu að standa þétt saman og nota hvert tækifæri sem gæfist til að koma mótmælum sínum á framfæri vegna innlimunar Krímskaga í Rússland og sagðist gjarnan vilja taka enn sterkar til orða en gert væri í yfirlýsingunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, gerði grein fyrir vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar til að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Hann kvað þá vinnu vera mikilvæga, bæði í sjávarútvegi og fiskeldi sem og í landbúnaði og skóganýtingu, auk þess sem unnið væri að því að innleiða sjálfbærni innan allra málaflokka hjá ráðherranefndinni. Ráðherra gerði enn fremur grein fyrir stefnuviðmiðum og ráðstefnum ráðherranefndarinnar varðandi sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og áherslum á hana í formennskuáætlun Íslands fyrir árið 2014, þar á meðal í verkefninu Norræna lífhagkerfið.

Hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir var talsmaður hægriflokkahóps í Norðurlandaráði í umræðunni um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Hún sagði sjálfbærni mjög mikilvæga í tengslum við auðlindir og uppsprettu þeirra og að nauðsynlegt væri að þjóðir heims kæmu sér saman um að nýta náttúruna á þann hátt að það yrði öllum til gagns og ánægju og hægt yrði að skila náttúrunni og auðlindum hennar til afkomenda þannig að þeir nytu hins sama og núlifandi fólk. Hún sagði að flokkahópur hægri manna teldi að það yrði best gert með samvinnu ríkisins og samfélagsins og einstaklinga og að hagvöxtur og sjálfbærni gætu haldist í hendur ef tækni og vit yrðu nýtt á þann hátt að ekki yrði gengið á auðlindir þannig að skaði yrði af.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók þátt í umræðunni um fiskveiðideilurnar og sagði þríhliða samning ESB, Noregs og Færeyja frá því í mars sl. byggjast á ofveiði og að meiri upplýsinga væri þörf til að takast betur á við núverandi stöðu; meiri rannsókna og meiri vísindalegra gagna væri þörf.

Nokkur umræða skapaðist um tillögu flokkahóps jafnaðarmanna og flokkahóps vinstri sósíalista og grænna um aukna áherslu á réttindi launafólks, um að Norðurlandaráð beindi tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að halda ráðstefnu til að varpa ljósi á forsendur og reynslu Norðurlanda af málefnum tengdum réttindum launafólks og félagslegu undirboði. Tillagan hafði verið afgreidd úr efnahags- og viðskiptanefnd með meirihlutaáliti um að Norðurlandaráð hefðist ekki að í málinu og minnihlutaáliti um að ráðið samþykkti tillöguna. Greidd voru atkvæði um nefndarálit meiri hlutans og var það samþykkt með 35 atkvæðum gegn 32, en einn sat hjá.

Þá var haldinn septemberfundur Norðurlandaráðs í Tampere í Finnlandi dagana 22.–23. september. Þar voru þau málefni sem höfðu verið lögð fyrir nefndir til umræðu áfram. Síðan var 66. þing Norðurlandaráðs haldið í Stokkhólmi 28.–30. október. Helstu mál á dagskrá voru leiðtogafundur norræna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga utanríkis-, öryggis- og varnarmála, stjórnsýsluhindranir, loftslags- og umhverfismál og samfélags- og heilbrigðismál.

Leiðtogafundur norrænna forsætisráðherra og stjórnarleiðtoga um norrænt samstarf fjallaði að þessu sinni um Norðurlönd framtíðarinnar með hliðsjón af menntun, aðlögun og vinnumarkaði. Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði við umræðuna að norrænt samstarf væri ekki síður mikilvægt nú í byrjun 21. aldar en það var á þeim tíma þegar Norðurlandaráð var stofnað í kjölfar síðari heimsstyrjaldar. Það þyrfti þó að nýta betur í framtíðinni til þess að ná sameiginlegum markmiðum í alþjóðlegri samkeppni með því að kynna Norðurlönd sem aðlaðandi markaðssvæði og þá sameiginlegu og jákvæðu ímynd sem hugtakið ,,Norden“ kallar fram í hugum fólks.

Stjórnsýsluhindranir milli Norðurlanda voru á dagskrá þingsins þar sem Kristina Persson, samstarfsráðherra Svíþjóðar, flutti skýrslu um vinnu gegn þeim og þar sérstaklega starf Stjórnsýsluhindranaráðsins undir formennsku Sivjar Friðleifsdóttur á þessu ári, formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var mikil hátíð þar sem að venju voru veitt verðlaun Norðurlandaráðs. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hlaut að þessu sinni finnlandssænski rithöfundurinn Kjell Westö fyrir skáldsöguna Hägring 38 og segir í rökstuðningi dómnefndar að hann skapi sterka tilfinningu fyrir andrúmslofti á örlagaríkum stundum í sögu Finnlands sem jafnframt teygja anga sína til nútímans. Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs hlaut að þessu sinni danska tónskáldið Simon Steen-Andersen og var það fyrir verkið Black Box Music. Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hlaut að þessu sinni Reykjavíkurborg og var það verðlaunahafi ársins 2013 Selina Juul sem afhenti verðlaunin. Ekki er hægt að horfa fram hjá kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs, þau hlaut að þessu sinni íslenska kvikmyndin Hross í oss, sem (Forseti hringir.) Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi og Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur, framleiddu.

Ég legg til að þessari skýrslu verði vísað til utanríkismálanefndar.