144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:29]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Margt er forvitnilegt í þessari skýrslu sem fjallar um verksvið og pólitískt svið sem ég hef talsverðan áhuga á. Í henni kemur fram, eins og hv. þingmaður gat um í framsögu sinni hér áðan, að unnið væri að því að í framtíðinni hefðu vestnorrænu ríkin þrjú sameiginlega stefnu um norðurslóðir. Það kemur fram í skýrslunni að ákveðið hafi verið á fundi, sem var í Grænlandi í janúar síðastliðnum, að stofna sérstaka nefnd um norðurslóðir sem hefði það hlutverk að vinna að undirbúningi sameiginlegrar stefnu um svæðið.

Frú forseti. Það er töluvert viðamikið að móta stefnu um norðurslóðir fyrir þrjú ríki. Alþingi Íslendinga hefur samþykkt sérstaka norðurslóðastefnu sem var samþykkt hér með öllum greiddum atkvæðum og ég held einróma. Ég velti því fyrir mér á hvaða hátt og í hvaða umboði verið er að búa til nefnd sem ekki er sagt frá í þessari skýrslu, né heldur er það skýrt í ræðu hv. þingmanns, að hefði einhverja sérstaka tengingu við til dæmis Alþingi. Er það þá þannig að það er einhver nefnd sem er að móta stefnu sem íslenska þingið kemur ekki að? Með hvaða hætti á að staðfesta þá stefnu þegar að því kemur?

Mig langar í framhaldi af þessu að spyrjast fyrir um, þó að hv. þingmaður geti kannski ekki skýrt það, ummæli í skýrslunni sem höfð eru eftir hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, sem mun hafa upplýst það á fundi ráðsins að íslenska ríkisstjórnin væri hin eina þessara þriggja (Forseti hringir.) sem hefði lækkað skatta á fólk sem býr í afskekktum byggðum. (Forseti hringir.) Ég hef kannski ekki verið nógu tíður gestur hér í þingsölum en ég kannast ekki við þetta. (Forseti hringir.) Ég er viss um að hv. formaður ráðsins getur útskýrt það fyrir mér.