144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að það er ekki hlutverk Vestnorræna ráðsins að móta utanríkisstefnu landanna þriggja. Við ákváðum hins vegar að ráðast í það að vinna þessa skýrslu sem ég vísaði hér til. Upp úr þeirri skýrslu ætlum við að vinna betur nánari tillögur sem síðan verða lagðar inn í utanríkisráðuneyti landanna þriggja. Þannig er verklagið og þessi nefnd, sem nú hefur verið fullmönnuð, en deildirnar þurftu hver og ein að tilnefna sinn mann, mun hefja störf nú í marsmánuði. Hver afraksturinn verður, það á tíminn einn eftir að leiða í ljós. En eins og ég segi þá er það innlegg Vestnorræna ráðsins til ríkisstjórnanna sem er uppleggið í þessu.

Varðandi einstök tilmæli eða ummæli einstakra þingmanna sem hér er vitnað til þá er hv. þingmaður væntanlega að vísa í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í Norðurlandaráði, ég ímynda mér að það sé það sem hann er að vísa til. Ég verð einfaldlega að segja að ég var ekki þar og get þess vegna ekki útskýrt þau ummæli. Ég bið hv. þingmann um að beina spurningum sínum til þess hv. þingmanns svo að ég sé ekki að reyna að túlka orð annarra sem ekki eru hér viðstaddir.