144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að leiðbeina mér um það, en ég ætla að leyfa mér að þiggja ekki þau ráð. Hv. þingmaður ber sem formaður ábyrgð á þessari skýrslu. Hún mælir fyrir henni og hún hlýtur þá væntanlega að geta skýrt út ummæli sem í henni eru, hvort þau hafi einhverja staðfestu við veruleikann.

Síðan ætla ég að leyfa mér að draga það stórlega í efa að Vestnorræna ráðið og þingmannanefndin hafi nokkurt umboð til þess að setjast niður, skipa undirbúningsnefnd til að samþykkja stefnu um norðurslóðir sem á svo að vísa til ráðuneytanna. Er það ekki þannig að þetta eru þingmenn af þessu þingi sem sitja þarna — ber þeim ekki með einhverjum hætti að hafa samráð, samband, við þá nefnd sem lögum samkvæmt sér um að móta afstöðu í utanríkismálum fyrir Alþingi Íslendinga? Hvorki í skýrslunni né heldur í ræðu hv. þingmanns og ekki heldur í andsvari hennar kemur neitt fram um að með einhverjum hætti beri að hafa samráð við hv. utanríkismálanefnd þingsins. Ég vil því lýsa mig algjörlega andsnúinn þessu og sömuleiðis lýsa þeirri skoðun minni að hv. þingmenn, sem sitja þarna fyrir okkar hönd, hafa ekkert umboð til að gera þetta.