144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:34]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vísa einfaldlega til hlutverks Vestnorræna ráðsins. Það kemur fram á bls. 2, þar er almennt rakið hvað Vestnorræna ráðið stendur fyrir og hvert hlutverk þess er. Hlutverk þess er meðal annars að stuðla að samvinnu ríkisstjórna og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg mál. Við tökum þau mál upp sem okkur þykja mikilvæg. Við tökum upp þau mál sem við höldum að löndin þrjú geti unnið saman og staðið sterkari saman eftir. Slíkri vinnu er síðan vísað með ákveðnum hætti, sem hv. þingmaður þekkir vel, enda þingreyndur maður, inn til þingsins og jafnframt sitjum við á fundum með ráðherrum.

Það hefur lengi verið baráttumál Vestnorræna ráðsins, og, held ég að ég geti fullyrt, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að slíkir samráðsfundir með utanríkisráðherrum landanna þriggja verði reglulegir og fastir, vegna þess að það er mikilvægt.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Vestnorræna ráðið sem slíkt hefur ekki það hlutverk að móta utanríkismálastefnu landanna þriggja. Engu að síður er það hlutverk okkar að beina tilmælum, ályktunum og skoðunum okkar, sem við gerum á fundum með ráðherrum, til ríkisstjórnanna og til þinganna þriggja. Þannig virkar þetta. Við skulum bara sjá hver afraksturinn af þessari vinnu verður. Skýrslan sem Egill Þór Níelsson fræðimaður, sem ég vísaði til í ræðu minni áðan, hefur unnið fyrir okkur er grunnurinn að því að kortleggja á hvaða sviðum hagsmunir landanna fara helst saman.

Nú má það vera að fyrrverandi utanríkisráðherra þyki Vestnorræna ráðið vera að gera sig heldur breitt, mér heyrist það á andsvörum hv. þingmanns. Engu að síður er það alveg ljóst að Vestnorræna ráðið samþykkti á ársfundi sínum að leggja í þessa vinnu og við því komu engin mótmæli frá nokkrum einasta þingmanni úr deildum landanna þriggja.