144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið ansi löng og við höfum rætt marga þætti sem gerðar hafa verið athugasemdir við í þessu máli. Oft er það þannig, þegar löng umræða hefur átt sér stað, að menn fara að ræða hvort ekki sé hægt að nálgast í málum. Það gerðist blessunarlega í þessu máli og við áttum góðan fund, nokkrir þingmenn, og höfum náð ágætisniðurstöðu þvert á flokka sem við getum vel fellt okkur við. Ég held að það gæti orðið ágætt fordæmi að því hvernig við getum unnið hér á komandi vikum.

Þau efnisatriði sem um ræðir, þau sem við höfum kannski helst verið að gagnrýna hér, er hversu þrengt væri að sveitarfélögunum, hversu lítil aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa væri í ferlinu, sömuleiðis umhverfisverndarsjónarmið, skortur á því að þeim væri gert hærra undir höfði í þessu og fleiri slíkir þættir sem við höfum náð ágætu samkomulagi um að vinna með á milli umræðna.

Ég vil í lokin þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni og hv. þm. Jóni Gunnarssyni, ásamt öðrum þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu og þessari vinnu, fyrir mjög gott samstarf á lokametrunum. Ég þakka þeim fyrir samstarfsvilja þeirra og líka fyrir að hafa unnið svona vel að því að við næðum að höggva á hnútinn. Síðan á eftir að vinna að útfærslunum. En við höfum að minnsta kosti náð þeirri stöðu í málinu að enginn hnútur er í því lengur og fyrir það ber að þakka. Ég þakka þeirra hlut í því.