144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[10:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn forseta til að vekja athygli á máli sem var til afgreiðslu í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í morgun. Þá var tekið út mál um sölu á áfengi og tóbaki, að færa það yfir í almennar búðir. Athugasemd mín gengur út á það að það er búið að sitja um að þetta mál verði tekið á dagskrá nefndarinnar og afgreitt þaðan út þegar vissir aðalmenn nefndarinnar eru ekki til staðar. Þannig var það í morgun að meðan einn af þingmönnunum sem hefur barist ötullega gegn þessu máli, hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir, er erlendis á vegum þingsins er málið sett á dagskrá fundarins. Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að þetta er eina þingmannamálið af 16 sem hefur verið tekið á dagskrá nefndarinnar. Þetta mál er líka þannig vaxið að af níu aðalmönnum eru aðeins tveir aðalmenn á nefndarálitinu.

Ég tel þetta ávísun á að við þurfum að fara að hugsa upp á nýtt hvernig mál eru afgreidd í gegnum þingið. Eigum við að taka upp þá reglu að öll mál komi í þingsal, sem er kannski full ástæða til, og verði þá afgreidd með jöfnum hætti? Þessi forgangsröðun innan nefndar á vegum eins formanns (Forseti hringir.) er óásættanleg.