144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

lyklafrumvarp.

[10:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það skiptir gríðarlega miklu máli að vel takist til við afnám hafta. Að því hefur verið unnið um langa hríð og menn vanda sig að sjálfsögðu við það. Það þarf að gæta að mjög mörgum þáttum í því efni, þá ekki síst hvernig afkoman verður fyrir heimilin í landinu. Við erum enn að vinna að því máli og að sjálfsögðu verður litið til þess að ekki verði gengið hart fram gagnvart heimilunum. Ég held að það hljóti að liggja fyrir og hefur einnig margoft verið lýst yfir, eins og hv. þingmaður að sjálfsögðu veit. Það skiptir verulegu máli fyrir íslenskt þjóðarbú að það takist vel og síðan enn og aftur skiptir líka mjög miklu máli að í framhaldinu af því takist okkur að reisa hér efnahagslífið við af fullum þunga.