144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:44]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir fyrirspurnina. Á þingmálaskránni er gert ráð fyrir, eins og þingmaðurinn sagði, að lögð verði fram fjögur frumvörp, frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, frumvarp til laga um húsnæðissamvinnufélög, frumvarp til laga um húsnæðismál og frumvarp til laga um húsnæðisbætur. Þessi frumvörp eru komin ansi langt áleiðis. Við munum á næstunni hefja samráðsferli við leigjendur, við þá sem eru með leigufélög. Við erum búin að eiga í miklu samráðsferli við Samband íslenskra sveitarfélaga um það sem snýr að því, þar á meðal að húsaleigubætur munu fara frá sveitarfélögunum yfir til ríkisins.

Síðast en ekki síst höfum við átt í töluverðum samtölum við fjármála- og efnahagsráðuneytið. Það er alveg ljóst að ekki er hægt að leggja fram þessi frumvörp án þess að tryggja fjármagn til að fjármagna þær breytingar sem þar þarf að fara í. Það er líka vegna þess að hluti af þeim tillögum sem voru til staðar sneri að mótun nýrra húsnæðisbóta og þar er lagt til að vaxtabætur sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðherra muni sameinast húsaleigubótum sem hafa verið á höndum sveitarfélaganna. Það er alveg ljóst að félags- og húsnæðismálaráðherra fer ekki með vaxtabæturnar, heldur fjármála- og efnahagsráðherra.

Ég vonast til þess að við náum niðurstöðu á næstu dögum hvað þetta varðar og að sjálfsögðu að málin muni koma fram fyrir þann frest sem við höfum til að leggja málin fram.