144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

forvirkar rannsóknarheimildir.

[10:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að opna þetta mál. Ég hef að undanförnu sagt opinberlega að ég telji nauðsynlegt fyrir okkur á Íslandi að opna umræðuna um öryggismál um heimildir lögreglu, hverjar þær eigi að vera, ekki síst út frá því grundvallaratriði að hér kallast á frelsi borgaranna til orðs og æðis og síðan nauðsynlegt öryggi til að halda því uppi hér í landi sem einnig snýr að frelsi borgaranna, að þeir séu öruggir í sínu landi. Þetta er mjög viðkvæm lína og nokkuð sem ég held að sé mjög mikilvægt að við ræðum á breiðum grundvelli.

Ég hef haft áhuga á því að geta hafið slíka umræðu í Alþingi og hef þess vegna hafið í innanríkisráðuneytinu gerð skýrslu um innanríkis- og öryggismál þar sem ég ætla að draga fram annars vegar mannréttindasjónarmið og hins vegar öryggissjónarmið sem eru samofin þeim sem og hvaða heimildir lögreglan hefur, hvernig málum er háttað í okkar helstu nágrannalöndum, Norðurlöndunum, og leggja fram á borðið tilteknar leiðir og ekki síst efni sem þingheimur getur rætt saman um. Í framhaldinu af því sjáum við hver næstu skref verða.

Það eru engin áform á þessu stigi í innanríkisráðuneytinu um að skrifa neitt frumvarp. Það sem ég hef fyrst og fremst haft áhuga á að kalla eftir er þessi umræða og það er ómögulegt að eiga hana nema við höfum eitthvert efni um að tala. Ég held að hlutverk innanríkisráðuneytisins sé að færa það efni fram. Ég á jafnvel von á því að okkur takist í ráðuneytinu að ljúka þessari skýrslugerð þannig að hægt sé að hefja umræðuna (Forseti hringir.) á þessu þingi.