144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

forvirkar rannsóknarheimildir.

[10:52]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég legg áherslu á að umræðan hefur tilhneigingu til að fara ansi hratt. Ég tek undir með hæstv. ráðherra, ég held að við eigum mikið inni í þessari umræðu og að mörgu sé ósvarað. Því miður hræða sporin, bæði það sem við höfum séð í nágrannalöndunum þar sem heimildir hafa leitt til þess að farið er ansi mikið inn á grátt svæði en einnig höfum við vitað að yfirvöld hafa í krafti þeirra heimilda sem þau nú þegar hafa farið yfir línur sem að minnsta kosti almenningur á Íslandi vill ekki að farið sé yfir, þ.e. í fortíðinni þegar kemur að hlerunum, jafnvel pólitískum.

Ég legg áherslu á þennan mannréttindavinkil, að við ræðum þetta út frá þessum tvennum mannréttindum sem hæstv. ráðherra talar um, annars vegar mannréttindum (Forseti hringir.) einstaklingsins og hins vegar samfélagsins. Við búum á Íslandi við frið, herleysi og almenna (Forseti hringir.) sátt um okkar helstu stofnanir. Ég held að það sé mikilvægt að við viðhöldum því.