144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

endurskoðun laga um fjárhagsaðstoð og greiðsluaðlögun.

[10:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar til að halda hér áfram máli sem ég bryddaði upp á í störfum þingsins í gær og spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvað líði framlagningu frumvarps til að endurskoða lög nr. 9/2014, sem er um fjárhagsaðstoð við einstaklinga sem æskja þess að fara í gjaldþrot. Það stendur skýrt í þeim lögum að þau skuli endurskoða fyrir árslok 2014. Þá er það reyndar þannig held ég, virðulegi forseti, að við erum kannski farin að fremja hér lögbrot fyrst við erum ekki búin að því, en það er nú kannski heldur djúpt í árinni tekið.

En mig langar til að spyrja ráðherrann hvað þessu líði og ekki síst í ljósi þess að það er nokkuð augljóst að lögin hafa ekki skilað þeim árangri sem við mörg hver, sem samþykktum þau hér, töldum að þau mundu gera vegna þess að meira en helmingi þeirra sem um þessa aðstoð sóttu var hafnað. Við skulum vera klár á því að þetta er fólk sem er mjög illa statt, það sér enga aðra leið út en að fara í gjaldþrot.

Nú var hæstv. ráðherra á síðasta þingi mjög ötull talsmaður þeirra sem áttu við skuldavanda að etja. Nú er komið í ljós að lyklafrumvarpið kemur ekki fram sem hún mælti mjög með, það hlýtur að valda henni vonbrigðum. Þetta úrræði virkar ekki og hún leggur ekki fram tillögu til endurskoðunar.

Mig langar að spyrja: Hvenær kemur það frumvarp fram?