144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

arður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[11:08]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er rangt að verið sé að færa auðlindarentu frá þjóðinni til einhverra tiltekinna aðila. Hins vegar var það þannig í tíð síðustu ríkisstjórnar að álögurnar sem hún lagði á hin ýmsu fyrirtæki, þessi 610 sem ekki voru á topp 10 listanum sem ekki geta greitt meira eins og ég held að við séum kannski sammála um, gerðu það að verkum að þau voru að gefast upp. Þess vegna tókum við á því og breyttum fyrirkomulaginu fljótlega á nýju kjörtímabili. Hver varð afleiðingin? Jú, afleiðingin varð sú að stóru fyrirtækin í uppsjávarvinnslunni þar sem gengur vel um þessar mundir greiddu mun meira hlutfallslega en hjá fyrri ríkisstjórn sem setti álögurnar með mjög miklum þunga á fyrirtækin 610 en undanskildu þessi stóru. Það er það sem við gerðum í upphafi kjörtímabilsins.

Það er mjög mikilvægt að í opinberri álagningu og þegar menn eru að greiða gjald fyrir aðgang að auðlindinni, fyrir leigugjald eða afnotin, sé ákveðið jafnræði. Við höfum síðan skattareglur og aðra löggjöf í landinu til að taka á öðrum hagnaði. Ég sé ekki betur en (Forseti hringir.) að sjávarútvegsfyrirtækin, ekki síst (Forseti hringir.) þetta (Forseti hringir.) tiltekna fyrirtæki, greiði umtalsverða hluti hér í opinbera sjóði.