144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa orðið fljótt og vel við beiðni um sérstakar umræður um þetta mikilvæga mál. Ég vil leggja áherslu á það hér í upphafi að staðan í þjónustu við aldraða er ekki á ábyrgð þess ráðherra eins sem nú situr heldur er samstarfsverkefni margra og staðan í málaflokknum þróast yfir lengri tíma. Það er mikilvægt að við ræðum um metnað ráðherrans til þess að auka gæði í þjónustu við aldraða á þeim tveimur árum sem eftir lifa af þessu kjörtímabili.

Á næstu 15 árum fjölgar Íslendingum 80 ára og eldri um helming. Hingað til hefur okkur gengið illa að tryggja nægilegt framboð af fyrsta flokks hjúkrunarrýmum. Sú spurning er áleitin hvort við verjum nægilegum fjármunum til að mæta hinni miklu aukningu sem verður á þörf fyrir hjúkrunarheimili á næstu 15 árum. Ég spyr ráðherrann þess vegna um áætlanir hans í þessu efni, um biðtíma og hvaða kröfur hann telur rétt að gera í því.

Ég spyr hann líka um áherslur eftir svæðum og mismunandi þarfir eftir svæðum. Hér í Reykjavík er talið að á höfuðborgarsvæðinu þurfi á næstu tveimur árum að minnsta kosti 200 ný hjúkrunarrými til að halda í horfinu. Nýframkvæmdir hafa aðeins verið ákveðnar á Seltjarnarnesi og í Kópavogi og það eru innan við 100 rými. Engin stór nýframkvæmd er komin á dagskrá hér í Reykjavík þar sem þörfin er þó mest og virðist fara hraðast vaxandi. Hér má líka nefna staði eins og Suðurnes þar sem biðlistinn er orðinn, held ég, 56 manns eftir slíkum úrræðum. Við þekkjum líka að við höfum verið að reyna að fjölga einbýlum og auka þannig gæði í húsnæði á hjúkrunarheimilum og ég spyr ráðherrann hvernig því verki miði.

Þjónusta við aldraða er ekki bara steinsteypa, hún er líka spurning um innihald þjónustu og gæði. Ég spyr ráðherrann hvernig gæðakröfur í þjónustu við aldraða séu tryggðar. Ýmsar frásagnir sem við höfum heyrt af þjónustu á öldrunarstofnunum vekja áleitnar spurningar í þeim efnum hvernig við tryggjum það og fylgjum því eftir að þjónusta þar sé fyrsta flokks. Eru gerðar samræmdar gæðakröfur til þessarar þjónustu? Hvernig er með kröfur um hluti eins og böðun, endurhæfingu o.s.frv.?

Nú búum við svo vel að hafa fengið til liðs við okkur fjölmarga til þess að starfa á þessum stöðum og sumir koma frá útlöndum. Ég spyr hvort þeir fái nægilega þjálfun til þess og skólun áður en þeir hefja störf við öldrunarstofnanir til að sinna þeim samskiptum og þeim mikilvægu þjónustuverkefnum sem þar eru annars vegar. Ég spyr sérstaklega vegna þess að það hefur verið að færast í aukana að þjónustuverkefni af því tagi séu boðin út og fengin lægstbjóðanda. Þá held ég að enn ríkari ástæða sé til þess að það séu skýrar gæðakröfur um hvaða þjálfun starfsmennirnir hafa fengið til að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem um ræðir.

Í nóvember á síðasta ári gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu og ég hvet menn til að kynna sér niðurstöður þeirrar skýrslu. Ríkisendurskoðun hvetur til þess að gerðir séu þjónustusamningar við öll hjúkrunarheimili í landinu og ég spyr hæstv. ráðherra hvað því líði; að þar verði skilgreint skýrt hvaða þjónustu ber að veita, hvaða gæði eigi að vera í þjónustunni. Ekki verður annað ráðið af skýrslunni en að á þetta skorti.

Ég spyr ráðherra hvort hann sé sammála því áliti Ríkisendurskoðunar að við gerum ekki nægilega skýrar gæðakröfur til þeirra fjölmörgu ólíku rekstraraðila sem starfa á þessum vettvangi. Þegar við ræðum um gæði í þjónustu við aldraða þurfum við líka að hugsa um það hvernig gæðaeftirlitinu er háttað. Ég spyr ráðherrann hvort hann telji að við þurfum að gera breytingar á því til að bæta þjónustuna og auka aðhaldið, horfa til hluta eins og trúnaðarmannakerfis, eins og verkalýðshreyfingin hefur notast við, eða réttindagæslukerfis, eins og menn nota í þjónustu við fatlaða. Er þörf fyrir embætti umboðsmanns aldraðra? Eða hvernig sér ráðherra fyrir sér að við getum aukið eftirlit og bætt aðhald með þeirri (Forseti hringir.) viðkvæmu og mikilvægu þjónustu sem þjónusta við aldraða er?