144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þá umræðu sem hann kallar eftir. Þetta er afar brýn umræða, þarft mál sem hér er tekið til umræðu. Vissulega eru þetta margar spurningar sem hv. fyrirspyrjandi er með og innihaldsríkar og bera með sér öll meginatriði þeirra áherslna sem þingið þarf að ræða og síðan stjórnsýslan á komandi árum. Sömuleiðis er brýnt að taka á þessum þáttum í dag.

Hér er spurt með hvaða hætti ég vilji nálgast það viðfangsefni sem liggur fyrir. Það er ærið að vöxtum og þetta er vissulega eins og þingmenn þekkja mjög fjárkrefjandi málaflokkur. Stofnkostnaður við byggingu eins hjúkrunarrýmis er um 30 millj. kr. og rekstrarkostnaður þessa sama rýmis 10 millj. kr. Það liggur fyrir í grófu mati, svo ég nálgist spurningu hv. þingmanns, að metin þörf eftir nýjum hjúkrunarrýmum til ársins 2020 liggi á bilinu 480–510 ný rými. Ég hef ekki fengið í hendur mat á þörfinni til næstu 15 ára. Það sem fyrst og fremst er verið að vinna með er þessi brýnasta þörf og hún er þessi, og liggur fyrir sömuleiðis að þörfin er brýnust á höfuðborgarsvæðinu, Árborgarsvæðinu og í Norðurþingi. Þetta eru þessi þrjú meginsvæði þar sem mesta þörfin er næstu fimm árin á uppbyggingu nýrra stofnanarýma.

Varðandi biðtíma eftir hjúkrunarrými eru tvær leiðir til að meta hann. Annars vegar er biðtími þeirra sem eru skráðir í þörf eftir hjúkrunarrýmum, þeir einstaklingar geta verið með umsóknir á fleiri en einum stað, en biðtími þeirra sem hafa komist inn í hjúkrunarrými, hafa verið metnir þannig, er í árslok 2014 um 82 dagar. Það eru vissulega mjög mismunandi þarfir eftir svæðum. Höfuðborgarsvæðið er eitt og síðan getum við tekið heilbrigðisumdæmin sjö. Þar eru þarfir mjög breytilegar, þótt í einu heilbrigðisumdæmi geti þarfirnar verið þannig að hin metna þörf samsvari öllum þeim hjúkrunarrýmum sem rekin eru í landinu.

Við erum í dag með tæplega 12 þús. manns yfir 80 ára. Við rekum rúmlega 2.600 hjúkrunarrými og liggur fyrir að einstaklingum þar eftir bið fer fjölgandi og við því þurfum við að bregðast. Áætlanir mínar liggja til þess að við tökum til og vinnum okkur inn í það að mæta stofnanauppbyggingunni á þeim þremur svæðum sem ég nefndi áðan. Þá er að hluta til sá hængur á að fjármunir sem fyrir eru, m.a. í Framkvæmdasjóði aldraðra, til þeirrar uppbyggingar eru ekki nægir í augnablikinu. Við erum fyrst og fremst að byggja núna eftir svokallaðri leiguleið samkvæmt áætlunum sem lagður var grunnur að árið 2008, hafnar framkvæmdir árið 2009, þetta var bygging 11 hjúkrunarrýma eftir leiguleiðinni. Það hefur miðað mishratt svo það sé sagt. Við eigum eftir að fullnusta samninga við Hafnarfjarðarbæ. Seltjarnarnes er komið af stað en lítið hefur hreyfst í Hafnarfirði og Kópavogi. Það er ný fjölgun rýma í Kópavogi, sömuleiðis á Seltjarnarnesi en engin í Hafnarfirði. Það sem þarf síðan að taka við er uppbyggingaráætlun fyrir þessi þrjú svæði og hún er í smíðum.

Hér er spurt um endurnýjun stofnanarýma. Samkvæmt tölum sem ég hef voru 85% íbúa hjúkrunarrýma á landinu í árslok 2012 í einbýli. Síðan þá hafa bæst við 60 einbýli í Garðabæ, 30 í Mosfellsbæ og við munum sjá einbýli koma í notkun í Bolungarvík, á Ísafirði og Fljótsdalshéraði á þessu ári. Þetta er allt samkvæmt þeim áætlunum sem keyrt hefur verið eftir frá árunum 2008/2009.

Ég mun svo reyna að koma að öðrum þáttum fyrirspurnar hv. þingmanns (Forseti hringir.) í minni síðari ræðu.