144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:28]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Ég er kannski með öðruvísi vangaveltur um þetta mál. Mér finnst þetta oft svo furðuleg umræða af því að maður hugsar til þess með eldri borgara og þær stofnanir sem við erum búin að búa til hvernig það væri út frá frelsi einstaklingsins til þess að velja. Með frelsi þá meina ég efnahagslegt frelsi af því að það er ekkert raunverulegt frelsi ef efnahagslegt frelsi er ekki til staðar. Hver væri þá staðan varðandi eldri borgara? Hvernig væri það ef fjölskyldur hefðu val og frelsi til þess að geta séð um foreldra sína, til þess að börnin gætu búið inn á heimili með foreldrum og ömmum og öfum eins og þegar við horfum til baka? Mér finnst við vera svo fljót að byggja upp stofnanir þar sem við flytjum eldri borgara hingað og svo eru börnin okkar í annarri stofnun af því að við erum svo ofboðslega „bissí“ í vinnunni. Þórbergur Þórðarson lýsti þessu vel. Hann kallaði okkur almenning „verslandi vinnuafl“. Ég spyr: Er það við? Er það það sem okkur langar til?

Mig langar dálítið til að við tökum þá umræðu og hugsum um hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig það væri ef við tækjum peningana sem fara í öll þessi kerfi og við mundum greiða þá út til einstaklinga, sköpuðum efnahagslegt frelsi á Íslandi þannig að fólk gæti valið og við sæjum hvað fólk vildi gera. Hefur einhver spurt eldri borgara hvernig þeir vilja lifa?