144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja þessa umræðu. Hér hefur verið vitnað í skýrslu Ríkisendurskoðunar, mjög góða skýrslu um brotalamir í því kerfi sem hjúkrunarheimilin eru og þar er ekki síst komið inn á nauðsyn þjónustusamninga, gæðaviðmiða og eftirlits. Og það er ágætt að setja þetta í samhengi við umræðuna sem nú fer fram um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, því að það eru óvíða jafn fjölbreytt rekstrarform og hjá hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Ef við lítum á ástandið í þeim efnum er þar skortur á rýmum, þar er skortur á gæðaviðmiðum og þar er skortur á eftirliti. Það hefur að sjálfsögðu að gera með að fjármagn skortir í málaflokkinn. Ég held að það sé ágætt að nýta umræðuna til að minna á það að framboð á heilbrigðisþjónustu og gæði hennar snýst ekki fyrst og fremst um rekstrarformið heldur þá fjármuni sem við erum tilbúin til að setja í málaflokkana.

Það stórvantar rými á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg bíður eftir að fá tækifæri til að hefja uppbyggingu 88 rýma á Sléttuvegi. Við vöruðum við því í umræðunni um fjárlögin um fjármuni í Framkvæmdasjóð aldraðra sem nú verða nýttir til rekstrar en ekki fjárfestingar í nýjum heimilum. Ef við hugum að þeim heimilum sem voru byggð eftir leiguleiðinni þá valdi t.d. Garðabær, sveitarfélagið sjálft, að reka hjúkrunarheimilið, því að þeir töldu það hagkvæmara og betra fyrir sveitarfélagið að vera sjálft með reksturinn á sinni könnu.

Ég vil því nota tækifærið í þessari umræðu að kalla eftir meiri fjármunum í málaflokkinn og að menn fari að einbeita sér að þeirri (Forseti hringir.) forgangsröðun í stað þess að einblína á rekstrarformið.