144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er sannarlega þörf umræða og hvað sem segja má um valfrelsi einstaklingsins er þetta málaflokkur sem ríkið ber ábyrgð á. Það á hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir líka að vita. (Gripið fram í.) Það er ástæða til að minna á að það var gert verulegt átak í þessum málum á síðasta kjörtímabili, í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Það voru byggð upp ný hjúkrunarheimili eða stækkuð á einum 8–10 stöðum, ef ég man rétt, (Gripið fram í: 11.) 11 stöðum. Það var fjárfesting upp á vel á annan tug milljarða króna. Þar var víða verið að bæta úr brýnni þörf, það stórbætti aðstæður í fjölmörgum byggðarlögum. Að vísu var víða verið að skipta út algjörlega ófullnægjandi gamalli aðstöðu í fjölbýli yfir í nútímalegt sérbýli þannig að það varð ekki samsvarandi fjölgun hjúkrunarrýma en engu að síður brýnt að gera það sem gert var.

Hvað með framhaldið? Eins og hér hefur verið upplýst er staðan sú að talið er að á höfuðborgarsvæðinu vanti hið bráðasta ein 200 ný hjúkrunarrými. Á Akureyri hefur hjúkrunarrýmum fækkað undanfarin ár og er það þó sá staður á landinu þar sem mest fólksfjölgun er utan suðvesturhornsins.

Svipað má segja um Þingeyjarsýslur. Þar er fjöldi hjúkrunarrýma langt undir metinni þörf og við getum nefnt byggðarlag eins og Djúpavog þar sem er ekkert hjúkrunarrými í 500 manna samfélagi sem liggur hundruð kílómetra frá næstu sambærilegri þjónustu. Það er óboðlegt í nútímanum að fólk sem þarf á svona þjónustu að halda verði að fara hreppaflutningum um langan veg og geti ekki eytt síðustu æviárunum í sinni heimabyggð. Það er óásættanlegt. Þess vegna er mjög brýnt að safna kröftunum saman um verulegt átak í þessum efnum. Þetta verður að vera eitt af forgangsverkefnum í þjónustu við aldraða og innan heilbrigðis- og félagskerfisins á næstu árum.

Að lokum verð ég að lýsa því yfir að ég er mjög ósáttur við og harma það að ekkert skuli vera að gerast í yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaganna. Það á að klára það verk (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að samþætta alla nærþjónustu við fólk (Forseti hringir.) í sinni heimabyggð á einni hendi, þ.e. hjá sveitarfélögunum.