144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Ég var líka spennt að heyra áherslur ráðherra, hvaða stefnu hann ætlar að taka í þessum málum. Þó að við séum að ræða hér sérstaklega framboð hjúkrunarrýma, sem sannarlega veitir ekki af að ræða af því að þjóðin eldist hratt og við þurfum að byggja upp, tek ég undir það hjá tveimur hv. þingmönnum sem hér hafa talað, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Halldóru Mogensen, að einmitt af því að þjóðin er að eldast svo hratt held ég að við náum ekki að halda í við með uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir allt þetta fólk. Við verðum að hugsa aðeins út fyrir rammann og líka út frá vali einstaklinga.

Hvað getum við gert öðruvísi og betur? Ég nefni heimaþjónustu. Hún þarf að vera mun sveigjanlegri og eftir þörfum hvers og eins. Það er hræðilegt til þess að hugsa að til dæmis hjónum sé stíað í sundur þegar annað þarf að fara inn á hjúkrunarheimili ef hægt er að gera betur í heimaþjónustu. Um þetta þarf líka að hugsa.

Svo tek ég undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur um þann kostnað sem við erum þegar með. Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um kostnaðinn sem er auðvitað mikill, en hvað erum við þegar að borga í óhagræði af því að aldraðir leggjast því miður inn á spítala af því að þeir komast ekki inn á hjúkrunarheimili? Þau úrræði eru mun dýrari. Hefur ráðherra gert greiningu eða úttekt á því hvað við mættum spara þarna með því að setja þá meiri peninga á móti í uppbyggingu hjúkrunarrýma?