144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér göngum við til atkvæða um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, sem að megninu til og eiginlega eingöngu snýst um innleiðingu á 22. gr. raforkutilskipunar Evrópusambandsins frá 2009 sem má eiginlega segja að hefði verið betra að gera fyrr. Þarna er að mínu mati tvímælalaust margt til bóta, þarna verður boðið upp á opnari og gegnsærra ferli.

Ég skrifaði upp á nefndarálit meiri hlutans með fyrirvara og stend við hann. Ég tel þarna margt til bóta þó að ég hafi vitað að nokkur atriði þörfnuðust lagfæringa og breytinga og hef nefnt það bæði á fundum og hér í Alþingi í ræðu. Það snýr meðal annars að því hvort við ættum til dæmis að skipta upp Orkustofnun í stjórnsýslustofnun en grundvallaratriðið er að þó að ég hafi ekki getað verið hér í gær, fór í aðra vík en Reykjavík, þ.e. Húsavík, á fund tók ég eftir þeirri samvinnu og þeim sáttavilja sem var hér í gær eftir harðar og miklar (Forseti hringir.) deilur. Ég vona að það sé gagnkvæmur skilningur og að okkur takist að mynda meiri sátt um þetta og helst allsherjarsátt, en við þingmenn Samfylkingarinnar munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna núna og vonast til að þær breytingar sem þarf að gera geri það að verkum að við getum stutt þetta til 3. umr.