144. löggjafarþing — 73. fundur,  27. feb. 2015.

nauðungarsala.

573. mál
[12:02]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gerði fyrirvara við þessa afgreiðslu en ekki vegna þess að ég væri ósáttur við að þetta mál yrði afgreitt. Ég mun greiða fyrir framgangi þess og mun greiða því atkvæði að auki. Það er samt ástæða til að staldra aðeins við. Við erum ítrekað að framlengja þetta mál vegna þess að hægar hefur gengið en reiknað hafði verið með að vinna úr málum en líka vegna þess að mörg önnur mál sem hefur verið horft til við lausnir varðandi úrvinnslu á skuldavanda heimilanna hafa ekki litið dagsins ljós í þinginu.

Í morgun var í óundirbúnum fyrirspurnatíma rætt um lyklafrumvarpið, framkvæmdina á frumvarpi sem samþykkt var í sambandi við það að greiða fyrir því að fólk gæti óskað gjaldþrots, þ.e. fengið kostnaðinn greiddan við það. Framkvæmdin á því hefur þvælst fyrir og það má telja upp fleira, það eru í rauninni ekki komin nein leiguúrræði o.s.frv.

Fyrirvarinn lýtur fyrst og fremst að ábendingum hvað þetta varðar. Svo höfum við ekki fengið skýr svör um eitt sem var ekki tími til akkúrat í þessari úrvinnslu, það er einhver hópur sem ætlaði að sækja um en hefur einhverra hluta vegna orðið út undan og er ekki búið að úrskurða hvort hann fær tækifæri til að vera með. Þetta frumvarp er algjörlega skilyrt við það að viðkomandi séu með umsóknir um leiðréttinguna og hafi gengið frá því formlega.

Ég veit um einstakling sem sótti um í gegnum endurskoðunarskrifstofu eða fékk aðstoð við það en síðan kemur í ljós að frá því var ekki gengið. Ég hef ekki fengið staðfestingu á því að það verði þá leiðrétt. Auðvitað er þetta ekki auðvelt, þetta er vandmeðfarið, en það er dapurlegt ef þetta mun hindra einhverja aðila í að fá úrvinnslu eða réttara sagt forða þeim frá gjaldþroti ef leiðréttingin hefði dugað til þess.

Þetta kemur fram líka í ákvæði sem er á undan þessum fyrirvara okkar Birgittu, að í mati nefndarinnar almennt er mikilvægt að gæta samræmis og jafnræðis í þeim málum sem ekki hefur fengist niðurstaða í. Við erum að biðja um að reglurnar verði sem almennastar.