144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:37]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Við ræðum í 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, með síðari breytingum.

Ég vil segja að hér erum við að staðfesta heilmikil tímamót og heilmikið réttlætismál sem er loksins að sjást fyrir endann á, sem er jöfnun á dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Rétt eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir vitnaði til eigin kjara þá þekki ég líka kjör þeirra sem í sveitum búa og vil svo sannarlega fagna því að við erum að ná þeim áfanga vegna sveitanna og vegna dreifbýlisins. Og við erum öll sammála um slíkt og enginn ágreiningur hefur risið um það, alla vega ekki hjá þeim sem hér hafa talað á undan, nema síður sé.

Ákveðið er að gera þetta raunverulega í tveimur áföngum, að ná þeim jöfnuði sem við stefnum að. Fyrsta skrefið er með þessum hætti, að jafna dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Okkur greinir einfaldlega bara á um það og kemur skýrt fram í ræðum þeirra hv. þingmanna sem hér hafa talað, (Gripið fram í.) að þeir tala fyrir því að framlengja tímabundna skattlagningu á orkunotkun stóriðju. Um það er ekki samstaða, þar skilja leiðir.

Í áliti meiri hlutans með málinu segir að boðað verði hér þingmál um að ná næsta áfanga, sem er jöfnun húshitunarkostnaðar. Ég treysti á stuðning þeirra þingmanna sem hér hafa talað og fleiri í hv. þingheimi um að ná þeim áfanga, því að það er sá áfangi sem við viljum sannarlega ná, þ.e. að við getum náð því baráttumáli til enda, sem svo glögglega kom fram í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um mismunandi húshitunarkostnað. Síðan blandast náttúrlega inn í það ótalmörg önnur sjónarmið sem við skulum alveg bera virðingu fyrir, eins og að fasteignaverð er með öðrum hætti á þeim svæðum o.s.frv. En þetta er samt eitt af þeim atriðum í grunnþjónustu okkar sem við viljum ná sem mestri samstöðu um, að ná sem mestum jöfnuði á milli landsmanna.

Við þekkjum vel gallana við slíka aðgerð, ekki ætla ég að kveinka mér undan því að kannast við þá, og þeir hafa verið raktir hér. Það er hins vegar ekkert sem segir að dreifiveiturnar þurfi vegna fjarvarmans að velta því út í gjaldskrána. Það ræðst náttúrlega líka af því hversu fljótt og hratt við komumst að því að ná næsta áfanga í málinu. Ég vil líka taka undir það sem þingmenn hafa sagt hér áður, að það eru kannski fáar meiri og betri kjarabætur til fyrir þá sem búa á hinum köldu svæðum, sem oft eru nefnd svo, en að jafna húshitunarkostnað. Um það held ég að við séum alveg sammála þó að okkur greini á um leiðir í málinu. Og til að taka það saman sem ég segi, við erum að taka hér mjög mikilvægt skref í þessari jöfnun, sem ég veit að við erum sammála um að við viljum vinna að og ekki hefur komið gagnrýni á það í ræðunum á undan. Þetta er fyrir íbúa í sveitum mjög stór áfangi, ég held að sú vísa sé aldrei of oft kveðin.

Ég nota þá líka tækifærið fyrst ég er farinn að tala í þessari umræðu, að kynna það að fyrir liggur breytingartillaga fyrir 3. umr. um lítið mál, en rétt að ég kynni það um leið, sem er lítil breyting á 4. gr., sem orðast svo: „Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. apríl 2015.“ Sem er svona ábending sem rétt er að taka tillit til þar sem kemur að uppgjöri dreifiveitna vegna þess jöfnunargjalds sem lagt verður á, að betra sé að gera það upp við hver mánaðamót en ekki einhvers staðar inni í miðjum mánuði.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.