144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Í dag er verið að greiða 240 millj. kr. til jöfnunar á dreifingu á raforku. Eins og ég skil það er gert ráð fyrir því að þegar jöfnun innan dreifiveitna verður komin inn að fullu falli það gjald niður. Er þá meiningin að ríkissjóður spari sér þá upphæð, eða hvað á að gera varðandi þá upphæð sem þarna er? Á hún að ganga beint til jöfnunar á húshitunarkostnaði eða á að bíða eftir þingsályktunartillögunni? Hvernig gengur að ná fram fjármunum á fjárlögum til þessa verkefnis? Eða verður strax ákveðið að sambærileg upphæð komi til sem ríkið sparar sér vegna þess að innbyrðis jöfnun verður með álagningu á selda raforku innan dreifikerfisins?

Mér finnst það þurfa að liggja fyrir hvort ríkið ætli að fara að spara sér þá upphæð með því að láta verða innbyrðis jöfnun í dreifiveitukerfinu. Það væri mjög gott að fá upplýsingar um það.

Varðandi það hvort orkufyrirtækin velti þessu út í verðlagið eða ekki, þá fengum við þær upplýsingar að til dæmis núna eftir áramótin hækkaði Orkubú Vestfjarða verðskrá sína fyrir dreifingu raforku í dreifbýli um 10%, og hjá Rarik hækkaði kílóvattstundin um áramót um 28 aura, sem svarar til um 3% (Forseti hringir.) meðalhækkunar. Ég vildi heyra sjónarmið hv. þingmanns í því máli.