144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:44]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Til að svara fyrri spurningum hennar í eins stuttu máli og ég mögulega get, hvort ríkið ætli að spara sér þessa upphæð, þá höfum við með þessu máli komið upp ákveðinni sjálfbærni í þessari jöfnun. Ég held að við séum sammála um að það sem upp á vantar til að ná þessum jöfnuði séu ekkert stórkostlegar upphæðir þannig að í mínum huga þurfum við ekki að fara út í frekari skattheimtu eða jöfnunaraðgerðir, ég horfi meira til ríkissjóðs til þess að taka lokaskrefið og þá eigum við þó matarholu í þessum 240 millj. kr.

Varðandi seinni hluta spurningar hennar um hækkun á rafmagni vil ég bara segja að ég hef ekki handbærar forsendurnar fyrir þeim verðhækkunum og tjái mig því ekki um það. Okkur svíður undan hækkunum hverjar sem þær eru og rétt eins og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni áðan um orkukostnað heimilis hennar vestur á fjörðum þá munar sannarlega um þessar hækkanir og þær eru ekki af hinu góða. En fyrirtækin hafa vafalaust sínar forsendur fyrir því sem ég kann ekki að nefna á þessu stigi.