144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns varðandi stórnotendur og bið hann að rökstyðja það aðeins betur en mér fannst koma fram í máli hans áðan af hverju ekki er hægt að taka þá aðila inn í þetta verkefni. Mér finnst ekki nóg að segja að við séum bara ekki sammála þar. Ég held að við skuldum þeim heimilum á landsbyggðinni sem búa við háa orkureikninga svör við því af hverju ekki er hægt að fara þá leið frekar en að bíða upp á von og óvon varðandi það hvenær ríkissjóður getur hugsanlega mætt kostnaðinum með niðurgreiðslum. Það verður alltaf barátta að ná því fram í gegnum fjárlög, líka barátta á milli dreifbýlis og þéttbýlis í þeim efnum. Við þekkjum það alveg, landsbyggðarþingmenn, að það er ekki endilega auðvelt og mörgum finnst ekki verið að jafna heldur niðurgreiða eitthvað ofan í landsbyggðina sem sé baggi á þjóðfélaginu. Því miður eru þau sjónarmið allt of hávær og raddir okkar sem tölum gegn slíkum sjónarmiðum ná kannski ekki eins vel í gegn vegna þess að þeim röddum er kannski að fækka svolítið hér á hinu háa Alþingi, því miður. Þess vegna þurfum við að láta heyra enn betur í okkur og sannfæra þingmenn þéttbýlissvæðisins á höfuðborgarsvæðinu um hve brýn þörf er á að jafna þann mikla grunnframfærslukostnað landsmanna sem þarna er á ferðinni varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar.