144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal glaður færa fyrir því betri rök sem hv. þingmaður kallar hér eftir. Ég gæti líka stundað hina hefðbundnu umræðupólitík: „Þið hefðuð nú getað klárað þetta einhvern tímann áður“, o.s.frv. Rökin eru einfaldlega þau sem ég tæpti á áðan, orkugjaldið var tímabundinn skattur og ákveðið er að framlengja hann ekki. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt að fyrir því standi ákveðin rök að það sé ekki hluti af almenna kerfinu o.s.frv. Ég er ekki þar með að segja að ég styðji það að smeygja stóriðjunni undan því að greiða hér skatta og hafa ákveðnar skyldur, nema síður sé.

Hitt málið er að ná þessum jöfnuði, sem ég veit að við hv. þm. Lilja Rafney erum alveg sammála um. Hún rakti mjög vel að það væri vandaverk að fá skilning fyrir þessu sjónarmiði. Ég hef samúð með þeim sem fá núna hækkaðan orkureikning vegna þessarar jöfnunar. En það er líka mjög mikil áskorun að útskýra fyrir fólki hvers vegna það er gert. Það er vegna þess að við höfum hingað til ekki litið á alla íbúa landsins sem jafna í því tilliti að nota þau almannagæði sem rafmagnið er og við framleiðum með endurnýjanlegum orkuauðlindum okkar. Kannski er það óþægilega harður skóli sem leiðir okkur þá bara hraðar og fyrr að seinna skrefinu að takmarkinu, þ.e. að jafna húshitunarkostnað með markverðum hætti með þeim áhrifum sem við erum sammála um, ég og hv. þm. Lilja Rafney, að við þurfum að ná. Það er, eins og hún segir, alltaf áskorun að tala fyrir hagsmunum þeirra sem í dreifbýlinu búa, þeim sem hafa aðra sýn og aðra stöðu. Það er ekki endilega létt verk að leggja þessi aukagjöld á þéttbýlisbúann á meðan þetta er að ganga yfir, en við ákváðum að gera það í þessum skrefum. Ég vona að þingmaðurinn beri virðingu fyrir því.