144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:54]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það svar sem hann gaf mér. Í seinna andsvari mínu langar mig aðeins að snúa umræðunni inn á það atriði sem verið hefur inni allt frá gildistöku raforkulaga 2003; þ.e. að 230, 240 millj. kr. voru notaðar beint af fjárlögum ríkisins til niðurgreiðslu húshitunar. Með þeirri skattheimtu sem meiri hlutinn leggur til, þ.e. leggja 30 aura á hverja kílóvattstund og 10 aura á hverja skerðanlega kílóvattstund raforku, leggur ríkissjóður eða iðnaðarráðherra til í leiðinni að þessar 240 millj. kr. til jöfnunar falli niður strax við næstu fjárlagagerð á næsta ár. Ríkissjóður tekur þá upphæð til sín vegna þess að skattheimtan er það há að hún er niðurgreiðslan plús 240 millj. kr. Ef þessar 240 millj. kr. fengju að vera áfram inni þyrfti ekki að leggja á 30 aura og 10 aura, heldur mundi talan í raun lækka um fjórðung. Það er hinn ókosturinn við leið stjórnarinnar, sannarlega.

Hin spurning mín varðar það sem lítið hefur verið rætt en var rætt í umsögnum manna á síðasta þingi og ég gerði að umtalsefni í ræðu minni áðan, þ.e. hækkun á skerðanlegri orku til fjarvarmaveitna. Ég held að hv. þingmanni verði ekki að ósk sinni að fjarvarmaveitur muni ekki setja þetta út í verðlagið, Það mun gerast, eins og segir í umsögn frá HS Veitum að þetta mun hafa hækkun í för með sér í fjarvarmaveitunni í Vestmannaeyjum og öðrum stöðum þar sem fjarvarmaveita er.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig á að rökstyðja það á móti þeirri góðu leið sem við í 2. minni hluta (Forseti hringir.) lögðu til gagnvart raforkuskattinum?