144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[12:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Lokaorð hv. þingmanns, þar sem hann fjallaði um útboð orkufyrirtækja á skerðanlegri orku, minntu mig á fund sem við þingmenn Norðausturkjördæmis áttum í hinni fyrri kjördæmaviku á nokkrum stöðum þar sem nokkrir aðilar, kaupendur að skerðanlegri orku, kvörtuðu yfir mikilli hækkun. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna okkur á það sem hann sagði vegna þess að þetta er alveg hárrétt, þetta á sér stað, því miður. Þá getum við rétt ímyndað okkur, virðulegi forseti, að 10 aura hækkunin á hverja kílóvattstund í skerðanlegri orku til fjarvarmaveitna eru smáaurar í raun og veru miðað við hitt. Ef þetta gengur eftir sem mér sýnist allar líkur á að gerist, þeir kaupendur kvörtuðu mikið, útboð átti sér stað og miklar hækkanir, hvar verður þá fjárhagslegur ávinningur þeirra sem nota þessa orku?

Virðulegi forseti. Mér sýnist að hér hafi verið dregið fram að miklu meiri hækkun komi á fjarvarmaveiturnar en menn hafa gert sér grein fyrir. Það leiðir huga manns að því að þessi áform voru ekkert uppi þegar t.d. HS Veitur og fleiri voru að skrifa umsagnir sínar. Það var ekkert fjallað um þetta. Ég kann ekki nákvæmlega að segja hvað 10 aurar breyti verði á skerðanlegri orku í dag í prósentum, en hitt man ég, tölurnar sem þar voru nefndar voru tugir prósenta. Þannig að þeir íbúar sem hita hús sín með fjarvarmaveitu munu heldur betur fá skell. Það verða íbúar í þéttbýli — vegna þess að í dreifbýli held ég, leyfi ég mér að fullyrða — kann þó að verða minna í einhverjum minni þéttbýliskjörnum, þá fá þeir enn þá meiri skell og þá er fjárhagslegi ávinningur þeirra algjörlega horfinn. Það er því ekki allt gull sem glóir.

Þetta síðasta atriði vildi ég gera að lokaorðum mínum enn einu sinni og segja að þessi leið stjórnarinnar er vond leið að góðu markmiði. Leiðin sem við lögðum til var miklu betri. Það er ekki sá agnúi á henni sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur nú lagt fram.

Virðulegi forseti. Ég sagði hér um náttúrupassa sem hæstv. ráðherra lagði fram að mér sýndist ráðherra hafa valið verstu leiðina. Mér virðist að hæstv. ráðherra, í þessu frumvarpi og þeirri skattlagningu sem hann er að leggja á íbúa í þéttbýli, sé líka jafnvel að fara verstu leiðina. Það er mjög slæmt að loksins þegar við erum að ná þessu sameiginlega markmiði okkar, þeim sjálfsögðu jöfnunaraðgerðum sem við erum búin að tala um mjög lengi hérna, en þau voru í kyrrstöðu í mörg ár. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var í fyrsta skipti, held ég, í 8–10 ár hækkað framlag til niðurgreiðslu húshitunar, ég man ekki töluna, en það var óbreytt fram að því þannig að við sáum að hlutfallslega miðað við hvað þetta var árið 2003, og við skulum segja 2012, var náttúrlega mjög mikill. Og svo þetta, að þessar umræddu milljónir, 240 milljónir, ætlar ráðherrann að taka út, gefa það til baka til ríkissjóðs til annarra ráðstafana sem nóg er hægt að gera við, en skattheimtan á íbúa í þéttbýli er þar af leiðandi sem þessu nemur meira. Svo plús þetta sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni um útboðið á skerðanlegri orku. Þá segi ég nú bara, ja, ég veit ekki hvaða orð ég á að nota um það þegar útreikningarnir munu koma fram. Þessi ávinningur er algjörlega horfinn hjá þeim sem búa við svona orkukaup.