144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki neitt sem ég þarf að bregðast við í þessu andsvari mínu við hv. þingmann. Hann dró fram ágæta punkta sem rétt er að hafa í huga og tók undir með mér um það hversu víðtæk áhrif ein lítil eða stór breyting hefur þegar allt er komið í samhengi.

Ég hef gert það að umtalsefni að menn skattleggja íbúa í þéttbýli til að greiða niður í dreifbýli, en þessi fagra aðgerð, þessi jöfnunaraðgerð gagnvart íbúum í dreifbýli er bara röng leið til að ná í það fjármagn sem þarf í það. Þar að auki vil ég geta þess að í þeim tölum sem ég hef talað hér um, sem eru gögn frá ráðuneytinu, er talað um í kringum 24.000 kílóvattstundir til notkunar á hita og er reiknað út frá því. En við vitum auðvitað að til eru heimili sem nota miklu meira. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, gömul hús, einfalt gler, einangruð að hætti byggingartíma þeirra og þar blæs kannski í gegn, sjálfvirk loftræsting, það kallar á meiri orkunotkun. Ef við segjum bara að menn færu upp í 40.000 kílóvattstundir, sem er ekkert óalgengt og var nú stundum notað sem viðmið til neysluniðurgreiðslu og allt sem var umfram það var óniðurgreitt, þá hækkar það hlutfall sem þarna er.

Hv. þingmaður minnti okkur á hina skerðanlegu orku og gerði grein fyrir því máli. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Ég óttast að það lækki ekki, það fari upp og muni ekki lækka þegar vatnsstaða og orkuframleiðsla kemur meira inn, ég veit það ekki. En það eru allt saman hlutir sem við í atvinnuveganefnd, ég og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, munum biðja um að gerð verði skýrsla um þegar reynsla verður komin á þetta (Forseti hringir.) þannig að við sjáum niðurstöðuna.