144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[13:38]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar um gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og landupplýsingagrunna. Landupplýsingar eru gögn sem tengjast sérstakri staðsetningu eða landsvæði en algengt er að slíkar upplýsingar séu settar fram á kortum. Landupplýsingar gefa til dæmis margvíslega fræðslu um landsvæði, jarðveg, landnotkun, samgöngur og mannvirki. Þær eru nauðsynlegur liður í ákvarðanatöku og eru notaðar meðal annars við stefnumótun stjórnvalda á ýmsum sviðum, svo sem á sviði framkvæmda, skipulagsmála og umhverfismála. Slík gögn eru einnig afar mikilvægur hlekkur við vöktun á náttúruvá og við framkvæmd almannavarna. Þá eru landupplýsingar mikilvægar til að afmarka lönd og lóðir.

Notkun og áhugi almennings á landupplýsingum hefur aukist mikið undanfarin ár, m.a. í tengslum við notkun snjallsíma og spjaldtölva þar sem stafræn landakort og loftmyndir eru samofin öðrum hugbúnaði, svo sem við leiðsögn í GPS-tækjum.

Sífellt meiri kröfur eru gerðar um betri og nákvæmari landupplýsingar um yfirborð jarðar og að þau gögn séu aðgengileg án hindrana, ekki síst vegna ferðaþjónustu og útivistar. Hins vegar takmarka núgildandi lög starfsemi Landmælinga Íslands að geta ekki miðlað landupplýsingum af meiri nákvæmni en 1:50.000. Í frumvarpinu er því lagt til að Landmælingar Íslands sjái til þess að komið verði upp landupplýsingagrunni, honum viðhaldið og miðlað í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tæknin leyfir svo stofnunin geti sinnt hlutverki sínu. Staðlaður kvarði er því felldur út.

Með frumvarpinu er Landmælingum Íslands ekki ætlað það hlutverk að sinna framleiðslu á grunngögnum, hliðstæðum þeim sem nú þegar eru til staðar hjá einkaaðilum. Ef frumvarpið verður að lögum geta stofnanir ríkisins haft meiri ávinning og möguleika á því að sameinast um kaup eða leigu landupplýsinga af einkaaðilum, svo sem á grundvelli útboða.

Ég tel skynsamlegt að einkamarkaðurinn sjái um framleiðslu landupplýsinga sem síðan ríki og sveitarfélög þurfa á að halda við framkvæmd lögbundinna verkefna en mikilvægt er að slík gögn sem keypt verða með opinberum fjármunum verði gerði aðgengileg og miðlað til almennings, fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra stjórnvalda. Sem dæmi má nefna að Landmælingar Íslands nýta fjarkönnunargögn sem aflað er með flugvélum eða gervitunglum aðallega við endurskoðun korta- og landupplýsingagrunna og leitast stofnunin við að afla slíkra gagna í samstarfi við aðra opinbera aðila til að ná sem mestri hagkvæmni. Áherslan hjá Landmælingum Íslands er að vinna í þróun og kynningu á nýjum aðferðum við úrvinnslu og notkun gagna og hefur hlutverk hennar breyst frá því að framleiða gögn yfir í að sinna verkefnum sem tengjast gæðaeftirliti á gögnum sem aðrir afla en sem nýtast síðan í þágu eða fyrir öryggi almennings.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að Landmælingar Íslands geti viðhaldið og miðlað landupplýsingagrunnum í samráði við önnur stjórnvöld. Er það í samræmi við markmið laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar, að byggja upp og viðhalda slíkum gögnum á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings.

Samkvæmt framangreindum lögum skulu Landmælingar Íslands starfrækja landupplýsingagátt. Tilgangurinn með þessari breytingu er að tryggja samræmi þeirra laga, þ.e. nr. 44/2011, og laga um landmælingar og grunnkortagerð. Með því verða stigin framfaraskref að því að koma upp víðtækum landupplýsingagrunnum hér á landi.

Að lokum er lagt til í frumvarpinu að gjaldtökuheimild Landmælinga Íslands verði felld brott. Er það í samræmi við það að gögn Landmælinga Íslands hafa verið gjaldfrjáls frá 23. janúar 2013 en sú breyting hefur leitt til stóraukinnar notkunar á gögnum.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.