144. löggjafarþing — 74. fundur,  27. feb. 2015.

landmælingar og grunnkortagerð.

560. mál
[13:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Sá kvarði sem er í notkun núna eða var áratugum saman, 1:50.000, hann datt ekki af himnum ofan, það var ekki svo. Það var sérstök ástæða fyrir því að hann var notaður. Það voru gögn sem við gátum fengið ókeypis á sínum tíma frá bandaríska hernum sem hér var. Þau voru í þeirri upplausn.

Við höfum hins vegar orðið þess áskynja á síðustu árum eftir því sem t.d. deilum hefur undið fram um nýtingu eða vernd náttúrunnar að stofnanir eins og Náttúrufræðistofnun sem hafa þurft að gera ítarlega grein fyrir búsvæðum og fjölbreytileika lífs á svæðum sem hugsanlega þarf að ganga á, hafa ekki alltaf getað notað gögnin sem Landmælingar hafa haft yfir að ráða. Þau hafa þurft að afla þeirra með einhverjum öðrum hætti eða greiða fyrir þau stórfé því þau hafa ekki getað nýtt gögn sem hafa verið á kvarða fyrir ofan 1:25.000. Það er því væntanlega lágmarkið sem menn munu nýta í framtíðinni.

Það sem ég var að velta fyrir mér og spurningin eiginlega fól í sér: Eiga Landmælingar einhver gögn sem eru brúkleg og ná yfir töluvert flæmi landsins sem eru á þeim kvarða? Er ekki mest af þeim gögnum sem stofnunin aflaði sér sjálf eða fékk í hendur á kvarðanum 1:50.000?

Svo er það hárrétt sem hér er vísað til að allt breytist, atvinnulíf okkar breytist. Við sjáum það að ferðaþjónustu fleygir fram. Gríðarlegur fjöldi fólks kemur til Íslands og þeim fjölgar auðvitað sem þarf að sækja upp á hálendið vegna þess að menn lenda í einhvers konar hrakningum eða hreinlega villast og týnast. Það er við slíkar aðstæður, þegar menn eru í leit og björgun, sem þörf er á mjög nákvæmum landupplýsingum í hárri upplausn. Verður gerð sérstök gangskör að því að stofnunin afli þeirra (Forseti hringir.) yfir hin fjölförnustu ferðamannasvæði á hálendinu?